„Þetta er í boði Jóa hjá Waterclouds, þú mátt bara taka þetta. Þetta er sjampó og hárnæring fyrir þig,“ segir Aron Mímir í nýjasta þætti þeirra Götustráka við forsetaframbjóðandann Steinunni Ólínu. Viðtalið er einlægt og heiðarlegt en í því fer Steinunn Ólína yfir það hvers vegna hún væri góður forseti, hvort hún myndi lofa þjóðinni einhverju ef hún yrði forseti og einnig það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum: þegar hún missti manninn sinn – hinn ástsæla leikara Stefán Karl Stefánsson.
„Ég held að það sé ekki skynsamlegt og í raun ósiðlegt af mér að gera það“
Þegar við grípum niður í viðtalið þá er Aron Mímir að bjóða Steinunni Ólínu hárvörur sem þeir félagar segja þær bestu á markaðnum – hvort það sé vegna þess að Waterclouds sé styrktaraðili þeirra félaga verður látið ósagt. Viðbrögð Steinunnar Ólínu við gjöfum drengjanna kom þeim hinsvegar á óvart.
Sigmundur hirti allt
„Veistu, ég veit ekki hvort ég sem forsetaframbjóðandi megi þiggja þetta. Ég held að það sé ekki viðurkvæmilegt – ég veit það ekki,“ segir Steinunn Ólína.
„Sigmundur Davíð tók hálft borðið af okkur, hann er reyndar ekki í framboði,“ segir Bjarki og hlær.
„Ég held að það sé ekki skynsamlegt og í raun ósiðlegt af mér að gera það,“ segir Bjarki sem gefst ekki upp og gefur Steinunni Ólínu upp sérstakan kóða sem hún getur notað á vefsíðu fyrirtækisins til þess að fá afslátt af vörum þess.
Ekki fyrir merkjavörur
„Vitiði það að ég er svo lítil merkjamanneskja. Ég nota það sjampó sem stendur hendi næst en takk kærlega fyrir boðið,“ segir Steinunn Ólína í þessu einlæga og skemmtilega viðtali þeirra Götustráka.
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt hlusta og horfa á það í heild sinni þá skaltu skunda inn á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast. Með áskrift að hlaðvarpsveitunni færðu aðgang að fjölda annarra þátta sem Brotkast býður upp á.