Gróðurhúsið (e. The Greenhouse) er nýr áfangastaður í Hveragerði sem opnar í sumar. Þar verður boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa Hveragerðis og nágrennis en einnig geta Íslendingar á ferðinni og erlendir ferðamenn fundið margt spennandi við sitt hæfi. Á neðri hæðum Gróðurhússins verða verslanir, kaffihús, mathöll, bar, sælkeraverslun og ísbúð en efri hæðir hýsa Greenhouse Hotel sem telur 49 herbergi og útiverönd.
Við uppbyggingu Gróðurhússins hefur sjálfbærni verið höfð að leiðarljósi og nafnið því vel við hæfi enda Hveragerði þekkt fyrir sín fjölmörgu gróðurhús. Markmiðið er að að gestir geti staldrað við í fallegu umhverfi og notið alls þess sem Gróðurhúsið hefur uppá að bjóða. Hálfdán Pedersen sér um heildar hönnun og útlit Gróðurhússins en samvinna er með Flóru garðyrkjustöð um ráðgjöf um gróður hússins sem að sjálfsögðu er í aðalhlutverki í sjálfum Blómabænum.
Greenhouse Hotel er boutique hótel með áherslu á sjálfbærni, gæða herbergi og skemmtilega stemningu og upplifun gesta. Lagt er upp með að hönnun herbergjanna tengi vel við Gróðurhúsið og nærumhverfið en saga Hveragerðis er mjög áhugaverð þar sem listir og hönnun spila stórt hlutverk. Áhersla er lögð á þétt samstarf með öðrum aðilum í húsinu og má þar nefna sem dæmi að hágæða Jensen rúmin sem verða í herbergjunum koma frá Epal og samstarf er með Te & Kaffi um þeirra umhverfisvænu kaffihylki sem gestir geta nýtt sér.
Lagt er upp með að gestir geti slakað vel á og náð í alla sína þjónustu sem þeir þurfa innan Gróðurhússins. Þeir sem kjósa geta síðan notið fjölbreyttrar útivistar sem er að finna í bakgarðinum en þar er heiti lækurinn í Reykjadal og Hengillinn vinsælir áningarstaðir. Margir fara í göngur, fjallahjól, útreiðatúra ásamt því að veiða í ánni og spila golf í sveitinni. Það er síðan margt í boði í nágrenninu og vinnur Gróðurhúsið náið með ferðaþjónustuaðilum í nærumhverfi sínu en þar má nefna Iceland Activities í Hveragerði, Black Beach Tours í Þorlákshöfn og Icebike Trail Center í Reykjadalnum.
Gamalgróin vörumerki úr höfuðborginni munu svo hafa starfsemi í Gróðurhúsinu s.s. Epal, Kormákur & Skjöldur, Álafoss og Te & Kaffi. Einnig mun ný starfsemi líta dagsins ljós en Rut Káradóttir innanhússarkitekt og eiginmaður hennar munu opna ísbúð í fallega hönnuðu umhverfi með ís framleiddan af Kjörís þar sem verða í boði ýmsar nýjar bragðtegundir. Einnig opnar ný sælkeraverslun í Gróðurhúsinu sem ber nafnið Me & Mu en þar er lögð áhersla á matvæli ræktuð og unnin í héraði – handgert og heimaræktað.
Mathöll Suðurlands verður svo staðsett í Gróðurhúsinu með fjölbreytta flóru veitingastaða þ.m.t. Hipstur sem býður uppá ljúfengan mat þar sem ferskleiki er hafður í fyrirrúmi, Block Burger með alvöru hamborgara, Wok on sérhæfir sig í asískri matargerð og Taco vagninn býður uppá taco og nachos rétti. Barinn verður tengdur mathöllinni og staðsettur í stórum glerskála í suðurenda byggingarinnar. Hann verður á tveimur hæðum ásamt úti þaksvölum í suður þar sem gestir geta slakað á í góðu veðri með glæsilegu útsýni.