Guðmundur Jóhann Arngrímsson og Regína Björk Jónsdóttir hafa verið ráðin í tækniþjónustu- og afhendingardeild Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) en þau búa bæði þau yfir víðtækri reynslu úr fjarskiptabransanum.
Regína starfaði áður sem viðskiptastjóri hjá Nova en hún er vottaður fjármálaráðgjafi úr Opna háskólanum í Reykjavík frá árinu 2017 auk þess sem hún nam viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.
Guðmundur starfaði sem verslunarstjóri hjá Vodafone. Hann leggur stund á fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá þau Guðmund og Regínu til starfa og bæta þannig enn meiri þekkingu og hæfni við þann frábæra mannauð sem vinnur nú þegar hjá Ljósleiðaranum.“ segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.
Með ráðningum Guðmundar og Regínu mun GR auka þjónustu sína við viðskiptavini á einstaklings – og fyrirtækjamarkaði. Þau Guðmundur og Regína hafa bæði hafið störf.
Um GR
Gagnaveita Reykjavíkur á og rekur Ljósleiðarann og er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. GR var stofnað árið 2007 og hefur frá þeim tíma unnið hörðum höndum að því að ljósleiðaravæða landið. Hlutverk GR er að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti sem öllum fjarskiptafélögum er frjálst að nýta til að selja sína þjónustu. Hjá Ljósleiðaranum starfa 50 manns auk verktaka.