Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Eliza Reid forsetafrú halda í dag til Edinborgar. Markmið ferðarinnar er að styrkja enn frekar vinabönd Íslendinga og Skota, með áherslu á sögu og menningu þjóðanna. Forseti á fundi í Edinborg með Humza Yousaf, forsætisráðherra Skotlands, og Lord Cameron af Lochiel, aðstoðarráðherra málefna Skotlands í bresku ríkisstjórninni. Þá heldur forseti opinn fyrirlestur við Edinborgarháskóla með yfirskriftinni „Iceland the Brave: The power and pitfalls of patriotism in a globalized world.“
Forsetafrú mun á sama tíma eiga fund með fulltrúum bókmenntaborgar UNESCO í Edinborg.
Með í Skotlandsförinni er Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Ráðherra fylgir forseta í heimsókn á Þjóðminjasafn Skotlands þar sem þau munu kynna sér hin svo kölluðu Lögréttutjöld. Þau eru talin hafa verið í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum á síðari hluta 18. aldar en voru seld skoskum ferðamanni árið 1858 og eru nú í eigu Þjóðminjasafns Skotlands. Þegar þau voru tekin úr landi höfðu þau verið á Bessastöðum í þónokkurn tíma. Í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi mun Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum fá tjöldin að láni og verða þau til sýnis á Íslandi.
Forseti og ráðherra munu einnig heimsækja Þjóðskjalasafn Skotlands. Þar eru íslensk handrit varðveitt, meðal annars fyrstu drögin að Lofsöng sem síðar varð íslenski þjóðsöngurinn. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið við ljóð Matthíasar Jochumssonar þegar þeir voru báðir í Edinborg. Hvort tveggja var unnið í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 og er verkið því 150 ára um þessar mundir.
Ferð forsetahjóna til Skotlands lýkur á miðvikudag.