Síðustu helgi safnaðist saman nokkuð margmenni við Arnarhól eftir að skemmtistaðir lokuðu, og margir sem enn voru skemmtanaþyrstir stigu þar dans.
DJ Margeir, sem bar ábyrgð á samkomunni, segir að honum hafi dottið í hug að blása til veislunnar á Arnarhóli þar sem hann er ekki í námunda við íbúðasvæði, öll skrifstofurými auð á þessum tíma auk þess sem næstu hótel eru lokuð vegna Covid-19.
Hann hafði með meðferðis nokkra kröftuga Bluetoothhátalara og DJ græjur, sem ganga fyrir rafhlöðum. Hann lék svo fyrir dansi á hólnum ásamt Natalie Gunnarsdóttur, en hún er einnig þekkt sem DJ Yamaho.
Á sunnudag birti DJ Margeir mynd á Facebook undir fyrirsögninni „hársbreidd frá handtöku“ þar sem hann sést í viðræðum við lögregluþjóna, sem mættir voru til að stöðva veisluhöldin.
Búum við ekki í frjálsu landi? Ég átta mig ekki alveg á því hvaða lög ég var að brjóta?
„Þetta var algjörlega sjálfsprottið og spontant, allir velkomnir, ekki var selt inn og ekki voru seldar veitingar. Ég einfaldlega kveikti á nokkrum kröftugum bluetooth hátölurum frá SoundBoks og lét vita með örstuttum fyrirvara í Instagram story. “
„Ég gerði mitt besta til að fylgja lögreglusamþykkt Reykjavíkur og passaði upp á það að gestir röskuðu ekki allsherjarreglu er varðar uppþot, áflog eða óspektir á almannafæri. Fjöldi gesta hverju sinni var innan fjöldatakmarkana sóttvarnarlæknis og staðsetningin var sérstaklega valin fyrir þær sakir að hóllinn er umkringdur skrifstofum stofnana og hljóði var stillt í hóf og náði því ekki að berast til íbúa í miðbænum og trufla svefn.“
„Það var fátt um svör þegar ég spurði lögregluna hvort hún vildi frekar að fólk færi af hólnum og inn í heimahús með þeim truflunum sem því fylgja. Einnig var athyglisvert að verða vitni að því þegar lögreglan leyfði öðrum gestum að taka við og kveikja á öðrum bluetooth hátölurum og brjóta þannig jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.“
„Ég vil taka það fram að lögreglan ætti að eiga auðvelt að fylgjast með þessu opna svæði, til að mynda í myndavélum og getur mætt á núll einni ef eitthvað kemur upp. Við höfum ekkert að fela.“
„Svo finnst mér athyglisvert að sjálfur dansinn, sem mannkynið hefur notað í aldanna rás sem heilunaraðferð og gæti verið eitt okkar besta vopn gegn veirunni, verði nú að fara fram með leyfi og fylgja tiktúrum lögreglunnar.“
„En ég viðurkenni það að ég er greinilega bullandi sekur um það að reyna að hafa gaman. Hvar gef ég mig fram?“
Óvíst með framhaldið
Margeir segist ekki endilega vera með það á dagskrá að endurtaka leikinn frá síðustu helgi. „En hver veit. Með þessa Soundboks hátalara þarf bara einn síma með Bluetooth tengingu og við erum komin með partý!“, segir Margeir lymskulega.