Í Verkamannabústöðunum við Hringbraut er íbúð Steineyjar Skúladóttur, söng-, leik- og sjónvarpskonu staðsett. Húsasamstæðan var reist á árunum 1931-1935 af Byggingarfélagi verkamanna, síðar Byggingarfélagi alþýðu. Guðjón Samúelson arkitekt teiknaði og voru húsin byggð í fúnkisstíl. Fram kemur í skýrslu frá Borgarsögusafni að byggingarsamstæðan sé með elstu húsum sem skipulögð voru í anda fúnksjónalisma og eru í dag órjúfanlegur hluti af götumynd þessa svæðis. Steiney hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi að undanförnu og situr ekki auðum höndum. Hún er ekki aðeins þátttakandi í Söngvakeppni sjónvarspins og einn af meðlimum Kanarí-grínhópsins heldur tók hún nýverið íbúðina sína í gegn frá a-ö og er útkoman stórgóð.
Þetta er brot úr lengra innliti hjá Húsum og Híbýli. Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.
Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.
„Hér bý ég og allt dótið mitt,“ segir Steiney glöð í bragði þegar við lítum inn einn vindasaman mánudagsmorgun. Hún hefur komið sér vel fyrir eftir heljarinnar framkvæmdir en óhætt er að segja að íbúðin hafi tekið stakkaskiptum síðan hún keypti hana árið 2018. Hún er um 71 fermetri að stærð og skiptist í opið eldhús og stofu, svefnherbergi, skrifstofu og krúttlegt bleikt baðherbergi.
„Ég reif allt út sem hægt var að rífa út; eldhúsinnréttinguna, baðherbergið, skápa, 90 ára gamalt gólfefni og braut niður veggi. Uppbyggingin fólst í því að setja upp burðarbita, fylla upp í hurðarop, færa staðsetningu eldhússins sem þýddi að bora og leggja þurfti nýjar vatnslagnir og pípulagnir og náttúrlega að ákveða nýtt útlit á eldhúsinu. Gólfið var örlítið sigið þannig það þurfti að flota áður en parketið var lagt á. Flísaleggja baðherbergið og kaupa nýtt klósett, baðkar og vask.
Myndir/ Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Ég lét einnig sérhanna sturtuhengisstöng sem myndi passa í þetta litla rými. Svo var náttúrlega að spartla, kítta og mála veggi og ofna, lakka glugga og hurðir og veggfóðra. Ég lét píparann hengja alla ofnana upp svo það þyrfti ekki að lyfta þeim upp og niður þegar dúkarnir voru teknir og nýja parketið var sett. Rafvirkinn kom svo og leiddi nýtt rafmagn. Og ég setti líka þrefalt gler í gluggana sem vísa út að Hringbraut.“ Svona lýsir Steiney framkvæmdunum sem hún réðst í sem tóku aðeins lengri tíma en áætlað var, að hennar sögn.
Veggfóðrið í eldhúsinu gefur rýminu sterkan svip en Steiney keypti það á vefsíðunni Etsy. „Eitthvað sem ég rambaði á og var á viðráðanlegu verði. Ég er ótrúlega ánægð með það. Býr til smá ævintýraheim.“
„Í einhverjum draumaheimi hélt ég að þetta tæki þrjár til fjórar vikur sem ég skil ekki að ég gæti hafa haldið. Raunin varð fjórir mánuðir en inni í því var langur biðtími eftir leyfi til að brjóta niður burðarvegg og setja bita.“ Hún segir skipulagið á íbúðinni fyrst og fremst hafa heillað sig. „Svo er hún hluti af Verkamannabústöðunum sem hafa svo mikinn sjarma. Ég man þegar ég var lítil og foreldrar mínir voru alltaf að kaupa einhver gömul hús og gera þau upp að ég sór þess eið að þegar ég keypti mér íbúð yrði hún glæný. Ég endaði svo að sjálfsögðu á að gera nákvæmlega það sama og þau því eins og ég segi það er svo mikill sjarmi í svona gömlum húsum – ef þau eru ekki mygluð.“
Elskar að raða
Hún segir áhugann á heimilinu alltaf hafa verið til staðar. „Ég elska til dæmis að raða. Þegar ég bjó með bestu vinkonu minni kallaði hún mig „Raðarann mikla frá Kasmír“ því ég get alveg gleymt mér í því. Ég raða naglalökkum, raða bókum, raða skóm, raða í skápa, raða í geymsluna og svo framvegis. Ég hef líka fína rýmisgreind þannig pabbi fékk mig stundum til að koma með hugmyndir að því hvernig mætti raða húsgögnum inn í rými og sagði að ég gæti farið í innanhússarkitektinn. Það hefði ekki verið fáránleg pæling þar sem afi minn og frændi eru báðir arkitektar en ekkert sem ég pældi í af alvöru.”
Eins og sjá má stendur Steiney svo sannarlega undir nafni, hér er litaröðunin upp á tíu og tengingin á milli rýma áreynslulaus og falleg. „Á sama tíma vil ég alls ekki að það sé of mikið af dóti; að hver hlutur fái að njóta sín og anda. Eins vil ég ekki hafa of stóra hluti í litlum rýmum og reyndar sömuleiðis of litla hluti í stórum rýmum.“