Tónlistarmaðurinn Herra Hnetusmjör var valinn Bæjarlistamaður Kópavogs en tilkynnt var um valið í Vatnsendaskóla í Kópavogi í dag, á 65 ára afmæli Kópavogsbæjar. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins
„Herra Hnetusmjör hefur ekki farið leynt með stolt sitt af því að vera Kópavogsbúi og borið hróður bæjarins víða allt frá því að hann hóf að starfa sem tónlistarmaður árið 2014. Í textum hans er Kópavogur alltaf í forgrunni og hefur verið frá upphafi,“ segir í tilkynningu um valið.
„Það er alveg geggjað að fá þessa viðurkenningu frá Kópavogsbæ eftir að hafa lagt alla þessa vinnu inn, þetta er þvílíkur heiður og ég er gríðarlega þakklátur,“ segir Herra Hnetusmjör í tilkynningu um málið. Hann tekur við sem Bæjarlistamaður Kópavogs af Rögnu Fróðadóttur, textílhönnuði og myndlistarmanni.
„Ég þakka kærlega fyrir stuðninginn frá Kópavogsbúum gegnum árin og þakka Kópavogsbæ fyrir viðurkenninguna.“