Auglýsing

Herra Hnetusmjör leggur spilin á borðin í nýju hlaðvarpi:„Um leið og Sara sagði mér að hún væri ólétt, þá var ég bara fokk LA“

Tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, eða Herra Hnetusmjör, er fyrsti gesturinn í hlaðvarpi Einars Bárðarsonar, Öll trixin. Hlaðvarpið Öll trixin er hlaðvarp um íslenskt tónlistarlíf, allt um tónlistarbransann með tómat, sinnep og steiktum eins og Einar kynnir sjálfur í upphafi.

Árni Páll er 24 ára og búinn að vera í bransanum í sjö ár.

„Líður eins og heil eilífð, því að þessi strákur er búinn að áorka þvílíkt miklu. Hann er ótrúlega klár og það er fyrst og fremst vinnusemin sem hefur unnið álit hans hjá mér,“ segir Einar. „Þegar ég heyrði nafnið Herra Hnetusmjör fyrst þá hugsaði ég; „Drottinn minn dýri hvað er þessi krakki að spá.“ Þá var mér bent á að ég hefði fundið upp nafnið Skítamórall og þá hló ég, en mest að sjálfum mér.“

„Herra Hnetusmjör er svona 30% ég, restin er egóið á sterum“

Herra Hnetusmjör er með 10 milljón spilanir á lögin sín árið 2020 og hlustað á hann í 92 löndum. Það eru 250 þúsund klukkustundir á bak við hlustunina og fylgjendur hans á Spotify eru um 210 þúsund. Hann er með gengi í kringum sig sem kallar sig KÓPBOIS. Hann er með útgáfusamning hjá Sony á Norðurlöndunum, var tilnefndur í fjórum flokkum og vann tvo verðlaun á íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra, gerði sjónvarpsþátt, gaf út plötu, byrjaði með hlaðvarp, gaf út ævisögu sína, var valinn Bæjarlistamaður Kópavogs og eignaðist son.

„Herra Hnetusmjör í tónlistinni er 30% af mér,“ segir Árni Páll um hversu mikið er af honum sjálfum í Herra Hnetusmjör. „Þetta er rosa mikið egó og líka þegar ég er í viðtölum, ég bara set allt í gang. Þegar ég segi að ég sé bestur þá trúi ég því.“  Einar segir Árna klókan að velja sér samstarfsfólk og spyr hvernig hann ákveður hverjum hann vilji vinna með. „Þegar ég gef út fyrsta lagið í febrúar 2014 þá tek ég „beat“ sem er að verða vinsælt með French Montana, Miley Cyrus og Will I Am úr Black Eyed Peas.“

„Klókur að velja samstarfsfólk

„Það er ekki fyrr en ég hef verið að gefa út tónlist í hálft ár sem ég kynnist Joe Frazier í gegnum félaga minn, sem segir hann vera að gera geggjaða takta, og við Joe smellum bara saman. Ég segi KÓPBOIS strax í fyrsta laginu. Og ég tek Joe inn þar og Arnór er umboðsmaður okkar. Hvítur búningur keðja er fyrsta lagið okkar og svo fyrsta lagið í spilun er Já maður árið 2015. Ég var með verra setup en þetta fyrst,“ segir Árni Páll og á við græjur Einars í hlaðvarpinu. Þannig berst talið að Þormóði Eiríkssyni einum helsta upptökustjóra landsins í þessari deild. „Þormóður er bara sturlaður, hann er bara langbesti pródúsentinn á landinu,“ segir Árni Páll um samstarfsmann sinn, sem er aðeins 25 ára. Þormóður var óþekktur þar til árið 2016 þegar tónlistarmennirnir Jói P og Króli heimsóttu stúdíóið hans á Ísafirði. Síðan þá hefur Þormóður unnið og samið tónlist með mörgum af vinsælustu popptónlistarmönnum samtímans.

„Um leið og Sara sagði mér að hún væri ólétt, þá var ég bara fokk LA“

Aðspurður um heimsfrægðina segir Herrann: „Ég átti einhverja drauma um að fara út en ekki lengur. Um leið og Sara sagði mér að hún væri ólétt, þá var ég bara fokk LA, fokk það dæmi, ég ætla bara að byggja góðan grunn hérna heima,“ segir Árni Páll.

„Ég vil frekar syngja um minn raunveruleika núna en að bulla um eitthvað“

Í þættinum ræða Einar og Árni Páll um feril Herra Hnetusmjörs og fjölmörg verkefni hans bæði í tónlistinni og á öðrum sviðum og hvað hann hyggst gera í framtíðinni, föður og afa Árna Páls sem báðir voru landsþekktir hvor á sínu starfssviði, hvort foreldrar hans hafi enn áhyggjur af honum en Árni hætti að drekka fyrir rúmlega fjórum árum síðan. „Það er rosalega mikill munur á textagerðinni minni fyrir og eftir meðferð. Fyrir meðferðina var þetta rosa mikið píur, áfengi og það sem því fylgir. Eftir meðferð fer ég eiginlega bara strax í samband þannig að það er off að tala um píur, ég er hættur að tala um brennivín og þegar ég tala um að fíra er ég að tala um vindla. Það sem situr eftir og ég get rappað um eru peningar og bærinn. Ég finn fyrir því að lífið er gott. Ég vil frekar syngja um minn raunveruleika núna en að bulla um eitthvað.“

„Þetta er jólalag um að ríða, bara talað fallega um það“

Þá ræða þeir félagarnir jólalagið og samstarfið með Björgvini Halldórssyni . „Ég er alinn upp á Björgvini Halldórssyni, hann er legend í leiknum. Ég var með lista yfir það sem ég vildi gera og svo var svona „secret“ listi og á honum var eitt nafn, Björgvin Halldórsson, af því ég var eiginlega viss um að það myndi ekki gerast,“ segir Árni Páll um tilurð jólalags hans og Björgvins, Þegar þú blikkar. Árni Páll var vinur Björgvins á Facebook og sendi til hans demó af laginu og fékk tilbaka hálftíma seinna: „Þetta er geggjað, þetta er hittari“ og bað Björgvin Árna Pál að semja vers fyrir sig. „Það er auðvelt fyrir mig að semja svona lög, þetta er svo lítill texti. Þetta er doldið svona Dr. Hook, þekkirðu Dr. Hook?,“ spyr Árni Páll Einar. „Ég elska Dr. Hook og hugsaði til þeirra þegar ég samdi þetta.  Ég fór á Dr. Hook í Hörpu þegar þeir komu hingað Basically öll lögin þeirra eru um að ríða, það er bara talað pent um það. Þetta er jólalag um að ríða, bara talað fallega um það.“ 

Aðspurður um hvernig hann sér framtíðina fyrir sér svarar Árni Páll: „Ef ég á að segja alveg eins og er þá veit ég ekki alveg hvað ég mun gera í framtíðinni. Ég veit ég mun gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ef mér finnst ennþá skemmtilegt að vera poppstjarna efitr tíu ár þá mun ég gera það. Númer eitt er fjárhagslegt öryggi, þannig að ég er að byggja upp grunn núna af fyrirtækjum, fasteignum, skemmtistaðinn 203. Blessunarlega erum við ekki að fara í gjaldþrot, við munum opna með látum um leið og veiran leyfir. Að byggja upp grunn af „cashflow“. Ég mun líklega halda áfram að gera tónlist af því mér finnst það bara drullugaman.“  Ég tek sko fulla ábyrgð á því að fasteignakaup í Kópavogi eru búin að rjúka upp síðan 2014,“ segir Árni Páll.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á Spotify:

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing