Tónlist Hildar Guðnadóttur í kvikmyndinni Joker er ein af fimmtán sem koma til greina í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin á Óskarsverðlaununum á næsta ári.
Á vef Variety kemur fram að alls hafi 170 frumsamin kvikmyndatónverk komið upphaflega til greina. Hópurinn hefur nú verið skorinn niður í fimmtán. Meðlimir bandarísku kvikmyndaakademíunnar mun, með atkvæðagreiðslu, velja þá sem tilnefndir verða til Óskarsverðlauna úr hinum fimmtán tónverka hóp sem nú hefur verið kynntur.
Tónlist Hildar í kvikmyndinni Joker hefur vakið mikla athygli og lof gagnrýnenda. Einnig hafa bæði kvikmyndatökustjóri myndarinnar og aðalleikarinn, Joaquin Phoenix, sagt að tónlist Hildar hafi leikið lykilhlutverk. Hildur hlaut nýverið tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna fyrir tónlistina í kvikmyndinni.
Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða kynntar þann 13. janúar næstkomandi. Verðlaunahátíðin sjálf verður haldin sunnudaginn 9. febrúar á næsta ári.