Auglýsing

„Hjartað var að gefast upp”

Ragnheiður Aradóttir er brosmild og hlý og tekur á móti mér á fallegu heimili sínu í Fossvoginum. Það er strax ljóst, við fyrstu kynni, að hér fer kona sem smitar út frá sér gleði, orku, jákvæðni, dugnaði og einhverju óútskýrðu sem gerir það að verkum að mig langar undir eins að verða vinkona hennar.

 


Texti/ Aðalheiður Ólafsdóttir
Myndir/ Rakel Rún Garðarsdóttir
Förðun/ Björg Alfreðsdóttir


 

Ragnheiður Aradóttir, eða Ragga, eins og hún er alltaf kölluð kallar ekki allt ömmu sína en lífshlaup hennar er litað af ótrúlegustu ævintýrum en ferillinn í leik, starfi og námi spannar fleiri atriði en margur upplifir á heilli mannsævi. Hún ólst upp í Fossvoginum og keypti æskuheimili sitt eftir að foreldrar hennar féllu frá enda fannst henni ekki hægt að setja húsið sem foreldrar hennar byggðu og nostruðu við í hendur vandalausra.

Ég má til með að spyrja út í fallega flygilinn sem prýðir hlýlegu stofuna sem við sitjum í við kertaljós og kaffisopa. „Mamma átti og spilaði á flygilinn en hún fékk hann þegar hún var 15 ára gömul. Hún hét Esther Jónsdóttir en það er svo skemmtileg tilviljun að ég eignaðist mann sem heitir Jón og við skírðum því elstu dóttur okkar í höfuðið á mömmu, þannig að þær voru alnöfnur. Mamma lést skömmu eftir að elsta dóttir mín fæddist en náði að halda á henni undir skírn.

Hún sagði þegar hún lá fyrir dauðanum, „jæja fyrst þetta er svona þá ætla ég að fá að skipta mínu persónulega dóti upp”. Þetta var erfitt en eftir á að hyggja var þetta ofboðslega dýrmæt stund með mömmu er hún skipti persónulegu hlutum eins og skartgripum sínum milli okkar systra eins og hana langaði. Hún rétti mér svo lykilinn að flyglinum og sagði, „ég vil að alnafna mín fái hann, við vitum auðvitað ekki hvort hún vill læra” en Esther okkar lærði á píanó í um 16 ár og spilar undurfallega.”

„Með því að stjórna hugarfarinu þá getum við alltaf skapað okkur vinningsaðstæður“

Það er augljóst þegar litið er yfir ferilskrá Röggu að hún er óhrædd við að prófa nýja hluti en manni dettur bara Georg Bjarnfreðarson í hug með sínar 5 háskólagráður. Ertu alltaf til í að prófa og læra eitthvað nýtt?

„Já heldur betur ég verð aldrei of gömul til að læra.” „Ég er 57 ára, bráðum miðaldra. Ég hef gaman af af því að læra, ég hef reynt að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín þrjú og vanið mig á að segja alltaf að allt sé mögulegt, láttu draumana rætast. Hafðu gaman og ef þú breytir um skoðun á því hvað þú vilt læra þá bara breytirðu. Fylgdu hjartanu, það er það eina sem skiptir máli hef ég sagt við þau öll.” Sjálf var ég of praktísk við val á námi í upphafi og sá eftir því í einhver ár. Elsta dóttir mín sem stefnir á doktorsnám og er komin með 4 háskólagráður 26 ára, ætlaði alltaf að verða læknir en hugurinn leitaði annað og þá sagði ég við hana þegar hún var í Versló, ,,ekki pæla í þessu hafðu bara gaman og fylgdu hjartanu, þú getur þá bara alltaf farið í lækninn seinna.”

„Ég hef sjálf í seinni tíð lært að vera spontant og hoppa á tækifærin án þess að pæla of mikið í því hvort það sé praktískt eða ekki. Ég á kærasta núna og hann segir gjarnan að það sé svo mikill unglingur í mér, ég held að það lýsi mér ágætlega”, segir hún glettin, „enda lífaldur bara einhver tala, hugarfarið segir hið sanna um þig og ég er einstaklega lífsglöð og jákvæð manneskja sem einfaldlega læt drauma mína rætast eftir bestu getu. Ég hef í mörg ár lifað eftir mottói sem ég bjó mér til en það er að með því að stjórna hugarfarinu þá getum við alltaf skapað okkur vinningsaðstæður“

 

Skilnaður eftir 27 ár saman

Ragga stofnaði fyrirtækin PROevents og PROcoaching með manninum sínum fyrrverandi en þau starfa ennþá saman eftir skilnaðinn. ,,Ég kappkosta að hugsa í lausnum og sagði þvi við minn fyrrverandi að það væri glapræði að eyðileggja „brandið“ okkar sem við værum búin að byggja svona vel upp. Hann var strax sammála og með pælingu og útfærslum á holóttri leið tókst okkur að finna farsæla lendingu og starfa áfram saman.

„Fólk virðir okkur mikið fyrir að hafa tekist að vinna saman með fyrirtækin eftir skilnað en það er ekki sjálfgefið. Við erum góðir vinir og hamingjusamlega skilin. Við héldum til dæmis fyrstu jólin saman á Ítalíu og fólk hélt þá að við værum tekin saman aftur. Þetta var auðvitað rosalega erfitt fyrst, eins og allir þekkja sem skilja en skilnaður er talinn annar mesti streituvaldur i lífinu. En þegar maður hreinsar erfiðleikana út, hefur burði til þess að skilja þá eftir, og heldur lífinu áfram þá er það þess virði.

Skilnaðurinn varð mér samt risastór streituvaldur og sjálfsagt hef ég verið komin í kulnun í einkalífi. Við skiljum á sama tíma og Covid er enn í gangi og fyrirtækin okkar að róa lífróður. Þetta lagðist allt mjög þungt á mig og ég var á köflum að bugast. Ég er þó fljót að snúa vörn í sókn í mótlæti og hef sannað það marg oft og það er í raun algerlega tengt mottóinu mínu að maður geti alltaf búið til vinningsaðstæður. Ég hef marg sannað það og er stolt af því. Ég er miklu betri markþjálfi vegna lífsreynslu minnar. Út úr jákvæðu sálfræðinni sem fjallar meðal annars um áfallastreitu og áfallastreituröskun þá er áfallaþroski, uppáhaldsorð hjá mér og er mér leiðarljós í lífinu. Það er ekki hvernig þú bognar eða brotnar, heldur hvernig þú ríst upp og verður sterkari en þá á sannarlegum forsendum en ekki hnefanum því það er skammgóður vermir og fljótt kemur að skuldadögum. Ég hef alveg fallið í þann pytt það er ljóst.”

Það var svo síðasta sumar sem Ragga fékk appelsínugula viðvörun eins og hún segir sjálf því hún var í raun nær dauða en lífi. „Hjartaáfallið mitt heitir harmslegill eða „broken heart syndrome”. Þetta er svo lítt þekkt, þetta kemur vegna uppsafnaðra áfalla sem gerir það að verkum að það er ensím í hjartanu sem á að vera bara pínulítið af, gildið má alls ekki fara yfir 27 á mælikvarða því þá er það orðið hættulegt en gildið í hjartanu mínu þegar mér er dröslað inn á spítala var að þetta ensím var komið í tæplega 1900 sem er alltof hátt, hjartað var að gefast upp.

Þetta var þannig að ég var með Landvættunum að æfa upp á Skaga, á Langasandi, lokaæfing fyrir næstu þraut sem er Urriðavatnssund. En það bjargaði mér að ég var í Landvættunum þar sem ég var með fullt af fólki. Þetta triggeraðist úti í sjó þar sem ég fann skyndilega fyrir miklum öndunarörðuleikum vegna bjúgs í lungum. Ég fékk að vita eftirá að hjartaáfallið var þá löngu byrjað. Ég er að synda í rólegheitunum og ekkert að reyna á mig, ég var bara þarna í rosalega góður formi. Búin að vera að æfa mig fyrir Urriðavatns sund sem er ein af 4 þrautum Landvættanna vatnasund í blautbúning. Ég hafði synt kílómeter í sundlaug um morguninn og var eldhress. Mér er svo mikið í mun að segja frá þessu því fólk þarf að vita þetta, því það er svo auðvelt að drepa sig, óvart! En það er líka svo auðvelt að koma í veg fyrir það ef við bara höfum ekki fordóma fyrir því sem fólk er að gera og erum ekki að setja alla í einhver hólf og kassa.

 

Þetta er brot úr lengra viðtali Vikunnar og má nálgast í heild sinni á áskriftarvef Birtings.
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing