Hólmgeir Baldursson, áhugamaður um sjónvarp sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að; „Vegna þessara tímamóta er komið að því að endurvekja Skjá 1.“
„Minn bakgrunnur er útgáfa og útleiga kvikmynda, fyrst á vhs og síðar á dvd-diskum hér heima og í Bretlandi. Sjónvarp var svolítið á öðru plani enda tæknihlutinn mikil völundarsmíð, en ég réðst þó í að stofna Skjá 1 og koma þeirri ágætu stöð í loftið um þetta leyti árið 1998. Skjár 1 fagnar því 25 ára útsendingarafmæli.“
Hólmgeir endurvakti stöðina í gegnum streymi á tímum Covid-faraldursins en nú stendur til að færa sig yfir í línulega dagskrá þar sem kvikmyndir og þættir verða meðal annars sýndir.
Hólmgeir segir að eins langt aftur og hann man hafi umræðan um ríkisstuðning við sjónvarp verið hávær en efndir verið engar.
Íslenskar sjónvarpsstöðvar týnt tölunni
Hann bendir á að íslenskar sjónvarpsstöðvar hafi týnt tölunni hver á fætur annarri síðustu misseri: ÍNN, Hringbraut og N4 og fleiri hafi komið og farið á undanförnum árum.
„Umræðan um nafnið Skjá 1 er bara skemmtileg að mínu mati og kássast lítið upp á mig, en ég var aldrei hrifinn af því að þeir sem keyptu rekstrarfélagið af mér um mitt ár 1999 skyldu ekki hafa meiri metnað í að koma með nýtt nafn í stað þess að skrumskæla mitt. Sú stöð varð svo að Sjónvarpi Símans fyrir rest, óviðkomandi mínu skráða hugverki. Skjár 1 stendur því enn sem virðulegt stöðvarheiti, hokið af reynslu á sjónvarpsmarkaði og því algjörlega óþarfi að koma með einhverja Stöð 7 þegar svona gott nafn er enn fyrir hendi.“
Hólmgeir talar svo um rekstrarumhverfi innlendra afþreyingarmiðla og segir það erfitt. „RÚV trónir á toppnum sem það sjónvarp sem ryksugar til sín almannafé fyrir milljarða árlega, en þrátt fyrir líflegar umræður í 25 ár hefur nákvæmlega ekkert breyst. Algjörlega töpuð barátta þar sem ráðamenn þjóðarinnar sjá enn ekki sóma sinn í að styðja við innlenda afþreyingarmiðla í samkeppni við RÚV og erlendar streymisveitur.“
Vegna þessara tímamóta er komið að því að endurvekja Skjá 1
Hólmgeir segir í pistli sínum að hann hafi skráð sig úr Sjálfstæðisflokknum til að geta betur varið þá skoðun sína að reka ópólitískan afþreyingarmiðil án hagsmunagæslu fyrir einn eða neinn.
„Það var ekki fyrr en Silfur Egils varð það afl í pólitískri umræðu á nýrri sjónvarpsstöð að eitthvað var verið að hnippa í „strákinn með nýju stöðina“ til að koma ákveðnum sjónarmiðum að, en á minni rekstrartíð með Skjá 1 ræddi ég aldrei við þáttastjórnendur um annað en að virða sjálfstæða dagskrárgerð og frelsi ritstjóra.“
Hólmgeir rifjar svo upp að hann hafi sett stöðina aftur í gang á streymi og skemmt með ókeypis afþreyingu í tæpa níu mánuði um 48 þúsund manns sem sátu heima í og úr sóttkví.
„Vegna þessara tímamóta er því komið að því að endurvekja Skjá 1, enda allt þegar þrennt er og í raun eru markaðsaðstæður fyrir sjónvarpsstöð hvorki betri né verri nú en 1998.“
Timburmannaþáttur á laugardagseftirmiðdegi fyrir þá sem eru að staulast á lappir fram eftir degi.
„Skjár 1 ætlar sér „bara“ að sinna línulegri dagskrá með „retró“ bíómyndir og gamla sjónvarpsþætti sem ég setti á dagskrá 1998, bara af því að það er enginn að gera það í dag, og skapa stöðinni sérstöðu á lifandi sjónvarpsmarkaði fyrir áhugasamar nýjar kynslóðir áhorfenda. Hver veit nema gamlir kunningjar komi aftur í formi „pólitískra spjallþátta“ eða timburmannaþáttur á laugardagseftirmiðdegi fyrir þá sem eru að staulast á lappir fram eftir degi. Aldrei að vita.“