Á föstudaginn næsta, Valentínusardaginn, fara fram hraðstefnumót á Kattakaffihúsinu við Bergstaðastræti 10a. Enginn annar en Elvis mun stjórna viðburðinum og sjá til þess að allir skemmti sér vel.
„Okkur fannst spennandi að prófa eitthvað nýtt, það er orðið svo þreytt að hanga bara á Tinder og hittast á börum. Svo erum við að fara að vera með alls konar uppákomur hjá okkur, spilakvöld, prjónakvöld og alls konar sniðugt. Þetta er fyrsti svona viðburðurinn hjá okkur og því langaði okkur að gera þetta með stæl,“ segir Gígja Sara Björnsson, annar eigenda Kattakaffihússins.
Hver umferð er 5-7 mín og á borðunum verða allskonar spurningar sem hægt er að nota ef fólk verður uppiskroppa með umræðuefni.
„Elvis lætur svo þátttakendur vita þegar næsta umferð hefst. Það verða að sjálfsögðu klósett- og snarlpásur og þá er bakkelsið okkar og drykkir í boði. Þegar kvöldinu lýkur láta þátttakendur okkur vita hvaða fólk það væri til í að hitta aftur. Ef báða aðila langar að halda kynnunum áfram, þá látum við þá fá upplýsingar um hvort annað,“ segir Gígja.
„Þetta þarf ekkert endilega að vera rómantísk stund, þetta getur verið skemmtilegt og létt spjall sem leiðir til þess að maður eignast vin eða bara spjall við áhugaverða manneskju.“
Fjörið hefst klukkan 19.00 næsta föstudag og hægt er að skrá sig á kattakaffihusid.is.
Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins