Auglýsing

Hugleikur og Jonathan með uppistandssýningu: „Duglegur að láta hann vita þegar hann er asshole”

Félagarnir Hugleikur Dagsson og Jonathan Duffy verða með uppistandssýninguna Icetralia í Austurbæ á morgun.

Þetta verður síðasta sýning þeirra félaga í bili en Hugleikur flytur af landi brott í október.

„Ég er að flýja land í október því það eru of fáir útlendingar hérna. Ég kem aftur þegar við erum búin að hleypa inn fleiri útlendingum. Útlendingar eru nefnilega bestu áhorfendurnir, sem er eitthvað sem ég lærði við að túra í útlöndum.” segir Hugleikur.

Síðasta vor fór Jonathan með Hugleik á túr um Evrópu þar sem þeir fylltu hvern salinn á fætur öðrum.

„Jonathan, eða Jono, ferðaðist með mér á evróputúrnum mínum í vor, þar sem við fylltum sali í átján borgum. Hann er einn besti grínisti landsins og góður haukur í horni. Hann segir mér til dæmis alltaf ef ég er að vera bitch og á móti er ég duglegur að láta hann vita þegar hann er asshole.”

En þeir vinirnir hafa ekki bara verið í uppistandi saman heldur hafa þeir undanfarin ár verið að gera góða hluti með hlaðvarpinu Icetralia .

„Áður en ég fer út langar mig samt að flytja uppistand amk einu sinni í viðbót. Mér fannst bara meika sens að gera það með vini mínum og samstarfsmanni, Jonathan Duffy, sem er ekki bara grínisti og Ástrali, heldur líka samkynhneigður. Ég og hann höfum verið með hlaðvarpið Icetralia síðastliðin 3 og hálft ár eða svo. Það er vinsælasta ástralsk/íslenska hlaðvarpið á norðurhveli jarðar.”

Að sögn þeirra félaga mun sýningin annaðkvöld ekki aðeins innihalda uppistand heldur einnig dansatriði og erótískan upplestur.

„Icetralia í Austurbæ, sem verður hugsanlega síðasta Icetralia sýningin ever, mun ekki bara innihalda uppistand frá okkur báðum, heldur líka dansatriði og erótískan upplestur. Sem og klassískan lið úr Icetralia podcastinu þar sem við leysum persónuleg vandamál áhorfenda í beinni. Þannig að ef þú átt við vanda að stríða í einkalífinu, kynlífinu eða bara lífinu, ekki eyða pening í sálfræðing. Koddu á Icetralia”

Sýningin er á föstudagskvöldið í Austurbæ. Húsið opnar kl. 20.30 og byrjar sýningin kl. 21.00. Miðasala er á tix.is og einnig verður selt inn við hurðina ef einhverjir miðar verða eftir.

Og fyrir áhugasama þá verða Hugleikur og Jonathan með Pubquiz, fyrir RIFF, í kvöld á Loft hostel en það verður einskonar upphitun fyrir sýninguna annaðkvöld.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing