„Í dag hafa um 130 þúsund manns greinst hér á landi með Covid-19 frá upphafi faraldursins. Áætlað hefur verið að fjöldi þeirra sem hefur smitast en ekki greinst, sé um tvöfalt meiri og því er hugsanlegt að um 70% landsmanna hafi nú þegar smitast af Covid-19. Því er ekki óvarlegt að ætla að hámarki faraldursins verði náð innan tveggja til þriggja vikna og í framhaldi af því fari nýgreiningum að fækka,“ skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í nýjum pistli á Covid.is
Hann segir einnig mikilvægt að fólk átti sig á því að Covid-19 sé ennþá stórt heilbrigðisvandamál hér á landi, þrátt fyrir afléttingar á opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu. Einnig hvetur hann fólk til að viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum.
„Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að Covid-19 er á þessum tímapunkti enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi þrátt fyrir að opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu hafi verið aflétt. Því eru allir hvattir til að viðhafa áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir sem miða að því að tefja útbreiðslu Covid-19 og þar með koma í veg fyrir óviðráðanlegt álag á heilbrigðiskerfi okkar. Andlitsgrímur gegna enn mikilvægu hlutverki í einstaklingsbundnum sóttvörnum en notkun þeirra er nú valkvæð,“ segir hann að lokum.