Auglýsing

Hús og híbýli: Árið 2022 í máli og myndum

Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir og Guðný Hrönn 
Frá vef Birtíngs*

 

Hér lítum við yfir farinn veg og skoðum hvaða heimili sem fjallað var um á árinu 2022, þetta er aðeins lítið brot af þeim innlitum sem birtust á síðum Húsa og híbýla í fyrra.

 

Við heimsóttum þau Árna Má Erlingsson myndlistarmann og Sigrúnu Karls Kristínardóttur, grafískan hönnuð, snemma á síðasta ári en þau búa í sjarmerandi íbúð á Laugaveginum. Húsið var byggt árið 1931 undir funkisáhrifum og hefur að mestu haldist óbreytt frá því það reis. Hér fá hin ýmsu verk sinn stað, allt frá nútíma- og samtímalist til skúlptúra og eldri verka. „Þetta gerir svo mikið fyrir rýmið, íbúðin væri allt önnur ef allar þessar myndir væru ekki á veggjunum.”

Við heimsóttum þetta einstaka heimili Önnu Ringsted sem oft hefur verið kennd við verslunina Fríðu frænku sem hún rak í 33 ár. Karakterinn í húsinu er sterkur og hafa flestallir hlutirnir fylgt henni alla tíð á meðan tískan hefur farið í hringi. Anna hefur gott auga og þjálfun í því að leita uppi og para saman gömul húsgögn og hluti.

Við litum jafnframt við hjá dóttur hennar Önnu, Elísabetu Sveinsdóttur. Þær búa í aðeins 200 metra fjarlægð hvor frá annarri, eru afar samrýmdar og deila áhugamáli á heimilinu saman af mikilli ástríðu. Elísabet segir stílinn alls ekki vera fastmótaðan og fá hlutir frá ýmsum áttum að njóta sín í íbúðinni. „Ég reyni eftir fremsta megni að sanka að mér tímalausum hlutum sem virka alltaf. Ef ég kaupi eitthvað þá vel ég vandaða hluti og safna mér helst fyrir þeim.”

Í þessari skemmtilegu íbúð býr Steiney Skúladóttir, söng-, leik- og sjónvarpskona. Hún tók alla íbúðina í gegn og fær þetta fallega og litríka veggfóður að njóta sín í eldhúsrýminu en veggfóður kemur til með að eiga sterka innkomu á árinu.

Í þessari skemmtilegu íbúð í miðbænum býr Sóley Þöll verslunarkona og plötusnúður í hjáverkum. Plöntur og króm er allsráðandi á heimilinu og eru mörg húsgögnin keypt á hinum ýmsu nytjamörkuðum. Hún er ung að aldri og segir að það skipti þá máli að kaupa notað og nefnir hún að mikil vitundarvakning hafi átt sér stað hjá hennar kynslóð í þeim efnum.

Litapallettan fangar augað á þessu hlýlega heimili í Hlíðunum, sem fellur vel að byggingarstíl hússins. „Okkur finnst gaman að blanda saman mjúkum tónum við sterkari liti og finnst mikilvægt að þeir kallist á hver við annan á fínlegan og lífrænan hátt.“

Í apríl heimsóttum við glænýtt einbýlishús í Skarðshlíðinni. Húsráðendur hönnuðu öll rými með þægindi og praktík í huga. Hér fá náttúrulegir litatónar og efni að njóta sín en þau segja að skandinavískur stíll og hráleiki í bland við hlýja liti og timburtóna hafi alltaf heillað þau.

Björt og falleg 70 fermetra íbúð í miðborginni. Húsið var hannað af Gunnlaugi Pálssyni arkitekt og lauk byggingu þess í kringum 1955. Hann aðhylltist hugmyndafræði funksjónalisma og ber íbúðin þess skýr merki. Hún hefur einkar skemmtileg form og eru hvítu gólfin sjarmerandi. Þau réðust í ýmsar framkvæmdir á eigninni og það sem þeim þótti hvað mikilvægast í því ferli var að halda í karaktereinkenni íbúðarinnar og nýta sem best þann efnivið sem fyrir var.

70‘s-áhrif og litagleði einkenna þessa íbúð í Reykjavík en hér búa þau Kolbrún Anna og Sölvi Bernódus. Þetta er fyrsta íbúð þeirra beggja og réðust þau í umtalsverðar framkvæmdir með sjálfbærni og endurvinnslu að leiðarljósi. „Við erum í raun stoltust af því hvað við erum búin að gera mikið úr íbúðinni og varðveita gamla útlitið sem var hér.” Appelsínuguliliturinn í eldhúsinu vekur athygli en hann heitir tvt-s402 og er frá Slippfélaginu.

Eftirminnilegt innlit úr júníblaðinu okkar en í þessu tignarlega timburhúsi við Laufásveg býr Harpa Pétursdóttir og fjölskylda. Litapallettan er mjúk og hlýleg og klæðir upprunalegu vegg- og gólffjalirnar vel. Þeim þótti mikilvægt að gera upp húsið, sem reis árið 1923, af virðingu við byggingarstílinn. Heimilið er hlaðið fallegum húsgögnum og smámunum hver í sínum stíl í takti við sjónarmið Hörpu. Eldhúsið er klassískt með nútímalegu tvisti og setja gólfflísarnar og brassið sterkan svip á rýmið.

Í sumar heimsóttum við Nýp á Skarðsströnd í Breiðafirði þar sem er í dag rekið gistiheimili og menningarsetur. Upphaflega var húsið reist sem torfbær sem fór síðar í eyði árið 1968. Þóra Sigurðardóttir myndlistarkona og Sumarliði Ísleifsson, maður hennar, hafa gert upp bæinn af miklum dug en þau segja hugmyndafræðina við endurbyggingu hússins fyrst og fremst hafa verið endurnýting og sjálfbærni. Arkitektastofan Studio Bua sá um hönnunina að hluta og hlaut verðlaun fyrir verkið árið 2020. Þau fengu jafnframt boð á Feneyjartvíæringinn í arkitektúr í kjölfarið en dóttir þeirra Sigrún Sumarliðadóttir er einn af þremur eigendum stofunnar.

 

Þetta heimili er staðsett í gylltu blokkunum á Kirkjusandi en hér býr Karen Björg handritshöfundur ásamt fjölskyldu sinni. Litapallettan er látlaus og yfirveguð en náttúrutónar sem þessir hafa verið áberandi á árinu. Hún segir þó heimilið vera í stöðugri þróun: „Ég er svona að reyna að rífa mig út úr þessari „íslensku búbblu“, víkka sjóndeildarhringinn og vera með eitthvað skrítið og skemmtilegt í bland.“

Í september lá leið okkar til Loga Pedro og Hallveigar Hafstað en þau hafa búið sér smart heimili á Skeggjagötu. Hér fá líflegir og spennandi munir sinn stað innan um aðra klassíska hönnun. Þau réðust í ýmsar framkvæmdir á eigninni og gátu gert mest megnis sjálf. Logi smíðaði til að mynda eldhúsinnréttinguna frá grunni úr birkikrossviði og svo er borðplatan steypt að hluta.

 

Á þessu bjarta heimili í Hlíðunum býr fagurkerinn Guðrún Vaka Steingrímsdóttir lögfræðingur. Hún fór í ýmsar framkvæmdir og reyndi eftir fremsta megni að nýta allan þann efnivið sem leit vel út og var heillegur. Hún málaði alla veggi, tók niður skápa, skipti um höldur, lakkaði lista og skellti rósettu í loftið sem er í takt við byggingartíma hússins – „það er oft hægt að gera mikið fyrir lítið.“

Í sumar lá leið okkar í einstakt hús í Svarfaðardal sem ber heitið Laugasteinn en hér hafa listahjónin Íris Ólöf Sigurjónsdóttir og Hjörleifur Hjartarson búið sér fallegt aðsetur. Hér kennir ýmissa grasa og fá ýmsir spennandi munir og myndlistarverk sinn stað. Húsið var byggt upp úr 1974 og þótti afar framúrstefnulegt. Það var  hannað af Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt, listamanni og heimspekingi en Laugasteinn er fyrsta steinsteypta húsið sem hann teiknaði.

Við heimsóttum Helgu Margréti og fjölskyldu snemma á árinu en þau búa í fallegri íbúð við Mávahlíð. Fjölskyldan flutti í íbúðina árið 2019 og hefur eignin tekið töluverðum breytingum síðan þau hófust handa við framkvæmdir. Þessi græni sófi vakti lukku hjá lesendum okkar enda er hann bæði fallegur en líka einstaklega þægilegur, sófinn var keyptur í ILVA og setur svo sannarlega skemmtilegan svip á rýmið.

Það var svo sannarlega gaman að heimsækja Brynju Guðmundsdóttur í vor en hún býr með unnusta sínum, Arnari Má Davíðssyni, og hundinum þeirra  Django, á Njarðargötu. Þau festu kaup á íbúðinni í desember árið 2020 og hafa síðan þá tekið allt í gegn og gjörbreytt íbúðinni. Útkoman er sérlega flott og hefur heimilið skemmtilegan karakter þar sem bleiki liturinn er gegnumgangandi.  Bleiki sófinn er mikið stofustáss en hann er frá danska merkinu Bolia. „Við sáum þennan sófa fyrst á netinu, þá með vínrauðu áklæði og upphaflega ætluðum við að taka hann í þeim lit. Þegar við fórum svo í verslunina að skoða hann þá sáum við þetta bleika áklæði og ákváðum að velja það.“

Það er alveg óhætt að segja að heimili Ruthar Gylfadóttur og fjölskyldu hennar sé svolítið frábrugðið flestum íslenskum híbýlum en afrískir straumar eru þar ríkjandi. Ruth hefur búið í Suður-Afríku hálfa ævina og áhrifin eru greinileg. Á nokkrum veggjum heimilisins er t.d. skemmtilegt listaverk frá Suður-Afríku úr þæfðri ull. „Ég hef keypt töluvert af vandaðri hönnunarvöru sem endist lengi og það má segja að það sé svona kjarninn á heimilinu, en svo skreyti ég mikið með handverki og listmunum frá suðurhluta Afríku, sem og frá Íslandi,“ sagði Ruth okkur en hún rekur verslunina Norza sem selur fallegar vistvænar hönnunarvörur.

 

Í fallegri íbúð í fjölbýlishúsi við Grettisgötu býr listamaðurinn Jóna Hlíf Halldórsdóttir ásamt eiginmanni sínum Hjálmari Stefáni Brynjólfssyni, lögfræðingi hjá Seðlabankanum, og börnum þeirra tveimur, Rósku Halldóru og Orra Hallgrími. Við heimsóttum þau snemma á árinu og var afar gaman að litast um heima hjá þeim þar sem falleg hönnun og listaverk prýða alla króka og kima. „Flest listaverkin á heimilinu eru eftir góða vini en sumum þeirra höfum við hjónin fjárfest í. Ljósmyndin sem er fyrir ofan stofusófann er eftir Hrafnkel Sigurðsson og heitir Rauðsmárabíó. Hrafnkell dvaldi í nokkra daga í sveitinni hans Hjálmars sem endaði með ljósmyndasýningu í Einkasafninu í Kristnesi. Við heilluðumst af þessu verki.“

Í smekklegri íbúð í parhúsi við Þúfulæk á Selfossi búa þau Sesselía Dan og Gunnar Bjarni, við kíktum í heimsókn í sumar. Ljós litapalletta einkennir heimilið en Sesselía segist heillast af birtu og léttleika þegar kemur að innanhússhönnun. Eftir mikla vinnu við að hreiðra um sig segir Sesselía þau vera himinlifandi með útkomuna. „Stundum trúi ég eiginlega ekki að við eigum heima hérna.“

 

Sól og blíða ríkti þegar við lögðum leið okkar úr bænum í sumar austur í Biskupstungur til að hitta listakonuna Aðalheiði Valgeirsdóttur á stórri og bjartri vinnustofu hennar á bæ sem stendur rétt ofan við Laugarás.  Aðeins ofar í bæjarstæðinu stendur reisulegt hús hennar og eiginmanns hennar Erlendar Hjaltasonar. Húsið er glæsilegt og svo sannarlega einstakt en útgangspunkturinn við hönnun þess var stórfenglegt útsýnið. Vinur þeirra, arkitektinn Jón Guðmundsson, teiknaði húsið í náinni samvinnu við þau. „Við pældum alveg rosalega mikið því hvernig húsið ætti að standa þannig að útsýnið nyti sín sem best. Þess vegna varð stofuglugginn alltaf stærri og stærri,“ sagði Aðalheiður.

Myndlistarkonan Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Helgi Vignir Bragason, byggingafræðingur og ljósmyndari, búa í reisulegu tveggja hæða húsi í Hafnarfirði sem var byggt árið 1952. Endurnýting leikur mikilvægt hlutverk á heimili þeirra. Þau Ingunn og Helgi eru bæði útsjónarsöm, skapandi og handlagin. Þau hafa sjálf smíðað og útfært ýmislegt heima við. Vaskaborðið inni á baðherbergi efri hæðarinnar er gott dæmi um það sem þau hafa útfært. „Við höfum svolítið verið að reyna að endurnýtagamla hluti og efnivið. Vaskaborðið á baðherberginu er gamalt snyrtiborð sem við keyptum á netinu.“

 

Heima hjá fatahönnuðinum Anítu Hirlekar í Vesturbænum. Veggurinn við eldhúsið fangar augað en hann er í skemmtilegum terracotta-lit og setur hlýlegan svip á rýmið. Þetta er fremur óvenjulegur litur en hann sérblandaði Aníta. „Þetta er kalkmálning, blönduð úr afgangskalklitum hjá Sérefni. Það er hreyfing í honum, hann er pínu ófullkominn og lifandi, það rímar vel við keramíkið, myndlistina og aðra hluti hérna heima.“

 

Krúttlegt A-hús á Þingvöllum sem við skoðuðum í sumar. Það var byggt árið 1965 og vekur eflaust upp nostalgíu hjá mörgum enda lögðu eigendur áherslu á að halda í upprunalegt útlit. Form hússins er einkennandi fyrir þann stíl sumarhúsa sem naut sérlega mikilla vinsælda á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum.

 

Hjónin Sigurbjörg Gyða og Ómar Örn búa í reisulegu húsi á Akranesi ásamt börnum sínum tveimur. Fimm ár eru liðin frá því að Sigurbjörg og Ómar festu kaup á húsinu og hafa þau staðið í miklum framkvæmdum síðan þá.  Þegar við heimsóttum þau spurðum við Sigurbjörgu út í stílinn sem einkennir heimilið og hún sagði hann vera blandaðan: „Þetta er kannski svona litríkur skandinavískur stíll með dassi af bóhem.“ Húsgögnin koma úr öllum áttum og eru sambland af gömlu og nýju. „Við höfum búið lengi og höfum sankað að okkur húsgögnum í gegnum árin, sumt höfum við keypt nýtt, annað notað á nytjamörkuðum eða á netinu og sumt höfum við fengið gefins frá fjölskyldumeðlimum, það er allur gangur á þessu.“

*endurbirt með leyfi.
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing