Fyrr á árinu tilkynnti Iceland Airwaves um Airwaves Plus sjóðinn, sem er nýtt frumkvæði af hálfu Iceland Airwaves, til þess gert að styðja við og hlúa að nýju og upprennandi tónlistarfólki á Íslandi.
„Iceland Airwaves hefur í tvo áratugi verið mikilvægasti stökkpallur íslenskra tónlistarmanna“, útskýrir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. „Við vildum auka okkar stuðning til þeirra með því að hjálpa þeim á skipulagðan hátt eftir að hátíðinni sjálfri lýkur í að taka næstu skref í þeirra tónlistarferli, hvað sem þau skref fela í sér“.
Á síðasta ári var hluti af hverri seldri Airwaves Plus uppfærslu úthlutað til sjóðsins sem var svo dreift til þriggja hljómsveita sem voru að koma fram á Iceland Airwaves í fyrsta skipti árið 2019.
Þrjár hljómsveitir voru valdar á eftirfarandi hátt: ein valin af almenningi, ein af innlendum og alþjóðlegum sérfræðingum í bransanum og ein af Iceland Airwaves teyminu sjálfu.
Handhafar Airwaves Plus sjóðsins 2019 voru eftirfarandi:
· Flammeus
· Blóðmör
· Ásta
Hver hjómsveit fær 350.000 kr. Í sinn hlut og geta þau nýtt sér peningana í næstu skref á ferlinum, til dæmis við upptökur, kostnað við að koma sér á framfæri, kostnað við að ferðast á erlendar hátíðir eða annað. Sjóðurinn 2019 var samtals 1.050.000kr.
Icelanda Airwaves óskar sigurvegurunum þremur innilega til hamingju með að hljóta allra fyrstu Airwaves Plus styrkina.
Sama fyrirkomulag verður á næstu hátíð sem fer fram í nóvember á þessu ári; héðan í frá munu þrjár nýjar og upprennandi hljómsveitir sem eru að koma fram í fyrsta skipti á Iceland Airwaves hljóta styrk eftir að hátíð lýkur frá Airwaves Plus sjóðnum.