„Við erum rosalega ánægð með hvernig þetta gekk allt og erum að fá jákvæð viðbrögð. Þetta er tveggja ára erfiðis vinna að baki,“ segir, Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.
Þetta er annað árið sem Sena heldur hátíðina undir sínum merkjum en hátíðin hefur verið í gangi í 20 ár. Hátíðin hefur verið rekin með miklu tapi í nokkur ár og hefur Sena unnið hörðum höndum í að rétta hana af.
„Þegar við tókum við þessu var þetta svolítið komið út í skurð, rekstrarlega séð. Við erum búin að fara í alls konar breytingar sem við vissum að yrðu erfiðar og yrðu ekkert endilega vinsælar. En við höfum verið dugleg að ræða þær og útskýra og það hefur mætt skilningi,“ segir Ísleifur.
En tekið var á það ráð að fækka verulega svokölluðum “off venue” tónleikastöðum en þegar mest var voru staðirnir sem tóku þátt í off-venue um 60 talsins en í ár voru þeir 20, en gjald sem staðirnir þurfa að greiða fyrir utandagskrárþátttöku var hækkað verulega.
„Við erum rosalega sátt við hvernig off-venue er í dag. Við skiljum alveg að fólk elski off-venue. Við elskum off-venue líka, segir Ísleifur og hlær. Að fara á einhvern lítinn bar eða bókasafn eða plötubúð og sjá frábæran íslenskan listamann, jafnvel einhvern þokkalega stóran, koma fram um miðjan dag, þetta er ólýsanleg stemning. Við þurftum bara að ná tökum á þessu, þetta var komið á yfir 60 staði og var farið að leysa hátíðina meira en að bæta við hana. Við höfum alltaf viljað halda í off-venue en samt að það væri einhver stjórn á því.“
„Við erum rosalega ánægð með hátíðina í núverandi mynd en auðvitað förum við í greiningarvinnu og förum yfir tölfræðina, hvað á að bóka mörg bönd og þess háttar. En við teljum okkur vera komin með mjög góðan grunn og við ætlum að halda áfram á sömu braut og erum mjög bjartsýn.“
Varðandi rekstur hátíðarinnar segir Ísleifur að markmiðið hafi alltaf verið að reka hátíðina á grunni „Það er ekki háleitara en það. Ef við náum að reka hana á núlli tiltölulega vandræðalaust erum við fín. Það er búið að bjarga hátíðinni og hún rúllar.“
Þetta kom fram á vef Mbl.