Íslenska efnisveitan Ísflix fer af stað 1.nóvember. Eru það félagarnir Ingvi Hrafn og Jón Kristinn Snæhólm sem standa að baki efnisveitunnar. Megin áhersla verður lögð á íslenska dagskrárgerð hjá veitunni og verður hún aðgengileg öllum í gegnum smáforrit, ekki verður innheimt neitt áskriftargjald.
„Þetta verður borgaraleg efnisveita,“ segir Jón Kristinn í samtali við Vísi. „Svona aðeins til hægri.“
Að sögn Jóns er unnið baki brotnu við að undirbúning enda aðeins mánuður til stefnu. Ísflix ætlar að bjóða upp á beinar útsendingar og fjölbreytta, borgaralega dagskrárgerð sem aðgengileg verður frá fyrsta degi. Svokallaður “pilot-þáttur” efnisveitunnar verður að sjálfsögðu þátturinn Hrafnaþing sem Ingvi Hrafn hélt lengi vel úti. Auk þess munu þeir bjóða upp á þjóðmálaþátt í beinni útsendingu alla sunnudaga, sem setur þá í samkeppni við þætti á borð við Sprengisand, Silfrið og Víglínuna, sem einnig eru á dagskrá á sunnudögum.
Aðspurður segir Jón Kristinn að Ísflix óttist svo sannarlega ekki samkeppni við risana sem fyrir eru. Einnig bætir hann því við að efnisveitan muni fara nú fara í nánari kynningu og auglýsingu eftir því sem nær útgáfunni dregur.