Isabel Alejandra Díaz var í gærkvöldi endurkjörin forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins í gegnum fjarfundabúnað en ný Réttindaskrifstofa og nýkjörið Stúdentaráð munu formlega taka til starfa eftir skiptafund í maí. Isabel hlaut fyrst kjör í forseta Stúdentaráðs vorið 2020 og var þá fyrsti einstaklingurinn af erlendum uppruna til að gegna stöðu forseta Stúdentaráðs frá upphafi, á 100 ára afmælisári Stúdentaráðs, en ættir Isabel má rekja til Mið-Ameríku ríkisins El Salvador.
Í ár er aftur brotið blað í sögunni þar sem Isabel er fyrsta konan til að gegna embætti forseta Stúdentaráðs tvö ár í röð. Isabel leiddi framboðslista Röskvu í kosningum meðal stúdenta til háskólaráðs HÍ og hlaut kjör með flest greidd atkvæði í mars 2020. Hún hefur því samhliða störfum sínum sem forseti Stúdentaráðs sl. ár einnig setið í háskólaráði og mun halda áfram að gera svo næsta árið.
Isabel hefur áður setið sem varafulltrúi í Stúdentaráði og sviðsráðum, starfsárið 2018-2019 sinnti hún stöðu varafulltrúa á Hugvísindasviði og á Félagsvísindasviði starfsárið 2019-2020. Isabel útskrifaðist með BA gráðu í stjórnmálafræði og spænsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands í júní 2020. Meðfram náminu starfaði hún hjá Endurmenntun HÍ, UNICEF og var verkefnastýra Tungumálatöfra 2017-2018, sumarnámskeiðs fyrir tví- og fjöltyngd börn á Ísafirði. Þá útskrifaðist Isabel frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2016 og hlaut þrenn verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunnir, og var í kjölfarið fjallkona Ísafjarðbæjar 17. júní 2016.
„Síðastliðið ár hefur með skýrum hætti sýnt að rödd stúdenta er mikilvæg, en líka að oftar en ekki þurfi virkilega að vinna fyrir henni. Komandi ár er ekki síður fullt af áskorunum, á sama tíma og við drögum lærdóm af faraldrinum munum við halda áfram að takast á við áhrif hans. Erfið staða stúdenta á vinnumarkaði og innan námslánakerfisins eru málefni sem munu áfram krefjast vandaðrar hagsmunagæslu ásamt því að endurvekja verði önnur mál. Ég er full af eldmóði, þakklæti og tilhlökkunnar fyrir komandi starfsári.” segir Isabel.
Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ:
Varaforseti: Sara Þöll Finnbogadóttir, fráfarandi Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs 2020 – 2021. Hagsmunafulltrúi: Jessý Rún Jónsdóttir, einnig fulltrúi stúdenta í Háskólaráði 2020 – 2022. Lánasjóðsfulltrúi: Vífill Harðarson