Íslenski dansflokkurinn hefur hlotið norsku menningarverðlaunin SUBJEKTPRISEN 2020.
Subjektprisen er ein virtasta hátíð menningarársins Noregi og gefst almenningi kostur á að velja þau verk sem þykja skara fram úr á árinu. DuEls, samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Norska dansflokksins Nagelhus Schia Productions, hefur hlotið verðlaunin fyrir sviðslistaverk ársins eða „Stage Production of the Year“.
Dómnefnd hafði þetta umDuEls að segja:
„Sjaldgæf og ógleymanleg upplifun sem samanstendur af stórkostlegum hæfileikum og framúrskarandi kóreógrafíu innan um ódauðlegar höggmyndir Vigeland. Höggmyndir Gustavs Vigeland öðluðust annað líf í sýningunni við það vera ögrað og fá endurspeglun í dansinum. Duels er örlátt verk sem opnaði glænýjan heim í hverju herbergi sýningarsalarins.“
– SUBJEKT
„The rare experience – consisting of striking talent, groundbreaking choreography and Vigeland’s immortal sculptures as scenography – is impossible to forget. The sculptures were imitated, challenged and moved, and as the most generous art, „Duels „opened up a whole new world. In room after room.“
– SUBJEKT
Verkið DuEls eftir Ernu Ómarsdóttur og Damien Jalet var frumsýnt á hinu sögufræga Vigeland safni Oslóborgar í febrúar 2020.
DuEls er samstarf milli Íslenska dansflokksins og Norska dansflokksins Nagelhus Schia Productions. Verkið er samið af Ernu Ómarsdóttur, listdansstjóra Íslenska dansflokksins, og hinum Belgíska Damien Jalet en þau hafa áður starfað saman sem danshöfundar. Á meðal verka þeirra má nefna Transaquania out of the Blue (2009) og Black Marrow (2009).
Erna Ómarsdóttir er einn þekktasti samtímadansari og danshöfundur landsins og sexfaldur grímuverðlaunahafi. Hún hefur verið tilnefnd, ásamt Höllu Ólafsdóttur, til FAUST verðlaunanna, einna virtustu sviðslistaverðlauna heims, fyrir uppsetningu á Rómeó og Júlíu í München 2018. Hún hefur starfað með listamönnum á borð við Björk, Sigur Rós, Ragnari Kjartanssyni og Jóhanni Jóhannssyni, svo dæmi séu tekin.
Damien Jalet er dansari og danshöfundur sem hefur fengið mikið lof í listheiminum. Hann er meðal annars þekktur sem danshöfundur kvikmyndarinnar „Suspiria“ og fyrir „Anima“, nýjustu dans- og tónlistarmynd söngvarans Thom Yorke úr hljómsveitinni Radiohead. Meðal þekktustu dansverka hans er verkið „Skid“ sem hann samdi fyrir Dansflokkur Gautaborgaróperunnar árið 2017.
DuEls var unnið út frá sýningarstaðnum sem í þessu tilfelli var myndlistarsafn Gustav Vigeland sem er einn þekktasti listamaður Noregs. Höggmyndir Gustavs fjalla gjarnan um ævihlaup manneskjunnar með einum eða öðrum hætti og var hann einn af boðberum natúralismans á síðustu öld.
Uppselt var á allar sjö sýningarnar sem sýndar voru í Vigeland safninu. Stefnt er á að því að færa DuEls til Íslands á næsta ári.