Föstudaginn 14. febrúar kl. 16-18 verður opnuð sýningin Jöklar eftir Stefaníu Ragnarsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar.
Stefanía Ragnarsdóttir fæddist árið 1987 og lauk námi í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Hún ólst upp á Kjalarnesi en fjölskyldan fluttist síðar í Mosfellsbæ. Hún býr nú á Hofi í Öræfasveit undir Vatnajökli. Undanfarin ár hefur hún starfað sem landvörður og jöklaleiðsögumaður sem hefur haft mikil áhrif á verk hennar.
Sýningin Jöklar er önnur einkasýning Stefaníu tengd jöklum en í verkunum skoðar hún ægifegurð og kraft jöklanna. Abstrakt form mynda framandi landslag þar sem bláir, hvítir og svartir litir íssins fá að njóta sín. Í verkunum túlkar Stefanía fyrirbæri eins og jökulhlaup, sprungur og skriðjökla, en einnig breytingar jöklanna og hvernig þeir birtast okkur á ólíkum árstíðum og tímum.
Listasalur Mosfellsbæjar er opinn kl. 12-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum. Hann er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar í Kjarna, Þverholti 2. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.