Einn af ástsælustu uppistöndurum og leikurum landsins, Jón Gnarr, hefur sagt skilið við listræna starfsemi og ætlar að hella sér út í pólitík af fullum krafti. Þetta kemur fram í löngum pistli Jóns sem hann skrifaði á Facebook-síðu sína í gær. Þar segist hann hafa verið búinn að tilkynna það að hann hygðist gera stórar breytingar á högum sínum og með pistlinum sem hann skrifar virðist hann segja skilið við starf sitt sem leikari.
„Það er mjög mikið búið að ganga á í lífi okkar hjónanna síðustu misserin. Ein okkar allra kærasta vinkona laut í lægra haldi fyrir veikindum eftir langa baráttu. Það er svo ósegjanlega mikil sorg. Og gagnvart veikindum og dauða verður allt annað svo auðveldlega að innihaldslausu hjómi einu. Fólk hefur verið að spyrja mig allskonar spurninga og ég hef farið í fjölda viðtala. Hugurinn hefur unað við það og sorgin rétt hinkrar á meðan. Ég náði að kveðja Helgu mína á Líknardeild Landspítalans og fékk svo að halda á henni síðasta spölinn útúr kirkjunni. Og þarmeð er búið að setja enda á það. Blessuð sé minning Helgu Mogensen ❤️🔥 En lífið heldur áfram,“ skrifar Jón Gnarr sem nú ætlar að einbeita sér að því að hasla sér völl á hinu pólitíska leiksviði.
„Ég hef vissulega aðeins komið við þar áður 🙂 En nú langar mig að fá tækifæri til að verða að gagni og láta gott af mér leiða á Alþingi. Ég hef alltaf verið mjög pólitískur og má eiginlega segja að öll mín ævi hafi verið ein samfelld barátta; barátta við kerfi, barátta fyrir mannréttindum og ekki síst sjálfstæðisbarátta. Ég brenn fyrir ýmsum málum og málaflokkum og er í raun bara að bjóða uppá mína sérstöðu og reynslu. Ég á samleið með mörgum flokkum og í raun enginn flokkur á Íslandi sem ég gæti alls ekki hugsað mér að starfa með. Ég trúi á lýðræðið. Ég er sósíalisti og trúi á samfélag jöfnuðar sem hugar vel að sínum minnstu bræðrum og systrum, með almannatrygginga- og heilbrigðiskerfi fyrir allt fólk. En mér er líka mjög umhugsað um frelsi einstaklingsins,“ segir Jón Gnarr og tekur fram að hans grundvallarskoðun sé sú að það sé réttur hverrar manneskju að fá að fara sína persónulegu leið til lífshamingju svo framarlega sem hún liggur ekki í vegi fyrir sama rétti annarra til að fara sínar eigin leiðir.
Vill að fólk fái að eiga slöngur og eðlur sem gæludýr
„Þarna er ég alveg gallharður frjálshyggjumaður. Mér finnst að fólk eigi rétt á að fá hjálp til að enda líf sitt ef það kýs svo og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Mér finnst að fólk eigi að geta notað kannabis án þess að vera hundelt af lögreglu. Mér finnst í góðu lagi að halda eðlur og slöngur sem gæludýr. Mér finnst engum koma það við ef fullorðið fólk vill æfa og keppa í boxi. Eða eiga paintball byssur. Ég vil eiga þátt í að skapa réttlátt samfélag, þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum og allir njóta jafnræðis. En ég er líka frekar mikill Græningi. Ég veit að loftslagsbreytingar af manna völdum eru staðreynd og það er á ábyrgð okkar að gera það sem eðlilegt þykir í þeim málum; draga úr úblæstri, auka sjálfbærni og takmarka þann skaða, sem við mannfólk með tilveru okkar, völdum náttúrunni. Ég er samt alveg meðvitaður um það að samband manneskju og náttúru verður alltaf að vera samkomulag og byggja á málamiðlun. Við erum jú líka hluti af náttúrunni,“ skrifar Jón sem segist nú þakklátur fyrir aðild Íslands að NATÓ. Hann hafi þó ekki alltaf verið á þeirri skoðun.
„Ég er alþjóðasinni. Ég var lengi skeptískur á veru Íslands í NATÓ en í dag er ég þakklátur fyrir aðild okkar og bara stoltur af því að við Íslendingar séum ein af stofnþjóðum NATÓ. Með inngöngunni í NATÓ fór Ísland, á nokkrum árum, úr því að vera eitt frumstæðasta og fátækasta land Evrópu í það að verða eitt ríkasta velmegunarland í heimi. Ég trúi því að okkur bíði líka allskonar tækifæri ef við göngum í Evrópusambandið. Ég sé það samt ekki í neinum hyllingum og veit að slík innganga myndi líka innihalda allskonar málamiðlanir. En mér finnst að við eigum að kjósa um það hvort þráðurinn verði tekinn upp þar sem honum sleppti. Ég myndi sjálfur vilja klára þetta litla sem uppá vantaði þannig að við fengjum samning á borðið, hægt að kjósa og þar með komi endi á það.“
Kosningapróf, samtöl við fólk og ChatGPT mælti með Viðreisn
Þá segist Jón Gnarr hafa tekið kosningapróf á netinu og spurt ChatGPT ráða og að útkoman hafi verið sú að hann hafi valið Viðreisn sem þann flokk til þess að ganga í og reyna að hasla sér frekari völl á hinu pólitíska leiksviði.
„Þar er fólk sem deilir svipuðum áherslum og ég. Ég þekki margt fólk þar á bæ. Mörg sem voru beint og óbeint í Besta flokknum hafa haldið áfram pólitísku starfi þar. Og það eru persónulegar ástæður, að fá tækifæri til að vinna með fólki sem ég þekki og treysti. Og síðast, en ekki síst, þá valdi ég Viðreisn útaf þeim góða formanni sem þar stendur við stýrið. Ég hef þekkt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá því í gamla daga. Við höfum verið svona kunningjar. Við erum bæði „likkar“ sem við kaþólikkar köllum okkur stundum,“ skrifar Jón Gnarr og heldur áfram að mæra formann flokksins.
„Þorgerður er heilsteypt manneskja. Hún er kona orða sinna. Þegar ég ámálgaði þessa hugmynd, að fara í framboð fyrir Viðreisn, við hina og þessa þá var fólk svona misjafnlega hrifið af flokknum og stefnumálum hans. En öll luku þau lofsorði á Þorgerði Katrínu og fólk var sammála um að hún væri bæði greind, góð og falslaus manneskja. Það er hreint ekki sjálfgefið að hafa svona óflekkað mannorð og gott orðspor eftir að hafa starfað svona lengi í stjórnmálum. En það sýnir að það er hægt og ég vona að mér sjálfum beri gæfa til þess. Ég mun að minnsta kosti leggja mig allan fram. Ég stend á tímamótum í lífinu. Ég er mjög þakklátur fyrir lífið því það er svo langt frá því að vera sjálfgefið. Hver stund er dýrmæt og skiptir máli. Mig langar að reyna fyrir mér á nýjum vetvangi, upplifa og skilja, leggja eitthvað af mörkum og reyna að vera til gagns fyrir landið mitt góða og fólkið sem á því býr. Ég hlakka til þessa ferðalags og er bara nokkuð óhræddur. Enda í góðum hópi.“