Auglýsing

Jónsi gefur í dag út lagið „Exhale“

Jónsi gefur í dag út lagið „Exhale“ sem er fyrsta sólóefnið sem hann gefur út í meira en áratug. Samhliða útgáfu lagsins frumsýnir Jónsi einnig tónlistarmyndband við lagið sem hann leikstýrði sjálfur ásamt Giovanni Ribisi. Upptökustjórn lagsins var í höndum Jónsa og A.G. Cook.

„Exhale“ hefst mjúklega, með rödd Jónsa og lágstemmdum píanóleik. Hljóðgervlar bætast við píanóleikinn og lagið stigmagnast undir söng Jónsa sem endurtekur „just let it go now/ it isn’t your fault,“ sem má túlka sem einhverskonar stefnuyfirlýsingu eða leiðarstef fyrir óútreiknanlegt lífið á 21. öldinni.

Í tónlistarmyndbandinu birtist dansari undan svörtum plastdúk. Eftir því sem lagið stigmagnast og fleiri hljóðfæri og taktur bætast við spegla hreyfingar dansarans tónlistina á meðan efnisbútar úr dúknum þyrlast upp og svífa í loftinu eins og lauf í vindi.

Jónsi hefur frá upphafi ferils síns skapað sér nafn með mikilfenglegum tónsmíðum sem kafa djúpt ofan í mannlega vitund og kanna samband okkar við náttúruna. Með Sigur Rós tókst honum að umbreyta harðneskjulegu landslagi Íslands yfir í tónlist sem er bæði tær, lífræn og ósnortin af nútímanum, þó svo að hún lifi þar góðu lífi. Upptökustjórn Cook er á hinum enda litrófsins, hljóðheimur hans getur verið vélrænn, stundum harkalegur og afar tilraunakenndur. Samstarf þeirra gæti því komið einhverjum á óvart, en afraksturinn er fallegur og dáleiðandi rödd Jónsa ferðast á nýjar og ókunnugar slóðir í  „Exhale“

Fyrr á þessu ári hélt Jónsi sína fyrstu einkasýningu í hinu virta myndlistargalleríi Tanya Bonakdar Gallery í Los Angeles. Verk hans á sýningunni könnuðu áhrif hljóðs á fleiri skynfæri en bara eyrun.

Hlustaðu á „Exhale“ HÉRNA

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing