Júlí Heiðar tónlistarmaður sendi nýverið frá sér nýtt lag sem hann frumflutti í beinni útsendingu hjá Gústa B í útvarpsþættinum Veisla á FM957. Lagið ber heitið Brenndur og fjallar um upplifun hans af einelti og samskipti við hans nánustu fjölskyldu þegar hann var á tvítugsaldri.
Hermt er að lagið sé afsökunarbeiðni til þeirra og vitnar í þá sjálfsvinnu sem hann þurfti að fara í vegna brotinnar sjálfsmyndar í æsku. Í samtali við Vísi segist Júlí hafa ekki átt auðvelda skólagöngu.
„Ég varð fyrir miklu einelti í grunnskóla og þegar maður verður fyrir ítrekuðu aðkasti þá er það bara þannig að það fara að myndast sprungur sem erfitt er að fylla upp í án aðstoðar, þá sérstaklega þegar maður er ungur,“ segir Júlí Heiðar.
„Mín mesta eftirsjá snýr klárlega að því hvernig ég kom fram við foreldra mína og systkini þegar ég var um tvítugt. Á þessum tíma frá 19 ára til 23 ára hefði ég farið út af sporinu sem ég tengi aðeins við brotna sjálfsmynd og áhrif eineltis úr minni æsku. Þetta hafði mikil áhrif á fjölskylduna mína en það er eitthvað sem ég gat ekki skilið fyrr en ég varð foreldri sjálfur. Svo lagið er einhverskonar afsökunarbeiðni til þeirra.“
Júlí segir við ofannefndan miðil að sjálfsvinnan hafi skilað honum betri líðan og telur hann sig hafa unnið að miklu leyti úr eineltinu. Hann kveðst vera hamingjusamur í dag og segir að föðurhlutverkið og frábært samband spili þar inn.
„Það er ákveðið ferðalag að skanna ævi sína, sem spannar þó ekki nema 31 ár, skoða hvaðan maður kemur, hvert maður fór, hvar maður er og hvert maður stefnir í lífinu. Mér finnst gott að skrifa um þessa hluti og er það mín leið til að skilja mig betur og þroskast,“ segir tónlistarmaðurinn.