Justin Bieber telur að það sé orðið alltof seint að segja „Sorry“ þegar kemur að sumum af hans fyrrum „starfsmönnum“ ef svo mætti að orði komast. Um er að ræða einstaklinga sem sáu um fjármál stjörnunnar en Bieber er sannfærður um að þeir hafi farið illa með háar fjárhæðir og nú gæti verið kominn tími til að grípa til lögfræðilegra aðgerða.
Samkvæmt heimildum TMZ hefur Justin verið mjög óánægður í nokkur ár og hefur haldið því fram að hann hafi tapað miklum fjárhæðum vegna slæmra ákvarðana þessara starfsmanna— þó sé ekki vitað hversu margir þeir eru, en ljóst er að þeir eru fleiri en einn.
Óljóst er hversu miklu fé Bieber telur að hafi verið sóað, nema bara að um sé að ræða „verulegar upphæðir“. Heimildir TMZ segja að hann íhugi að höfða mál gegn þeim sem hann telur bera ábyrgð. Núverandi teymi hans er klofið — sumir eru hlynntir því að hann stefni, en aðrir eru ekki á sama máli.
Seldi réttinn að tónlist sinni
Rökin gegn lögsókn eru þau að Justin hafi sjálfur farið í gegnum tímabil þar sem hann eyddi fjármunum á mjög óábyrgan hátt. Með öðrum orðum — hann hafi sjálfur skapað vandamálið.
Það er þó ljóst að Justin á ekki í neinum fjárhagsvandræðum. Hann seldi tónlistarútgáfurétt sinn í janúar 2023 fyrir 200 milljónir dala, og áður en salan átti sér stað var nettóverðmæti hans talið vera um 100 milljónir dala eða um 13,6 milljarðar íslenskra króna.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Bieber muni höfða mál en líkt og TMZ greinir frá þá er verið að ræða þetta af mikilli alvöru í herbúðum poppstjörnunnar.