Hann var rólegur og yfirvegaður vinningshafinn í Lottóinu sem kom við í afgreiðslu Getspár í dag með fyrsta vinning upp á 54.5 milljónir króna. Miðinn var keyptur 12. júní síðastliðinn á sölustað N1 í Mosfellsbæ.
„Ég er líklega það sem myndi kallast kærulaus lottóspilari,“ sagði vinningshafinn aðspurður um hvenær hann áttaði sig á að hann hefði unnið.
„Ég fékk lánaðan síma hjá félaga mínum og notaði lottóappið til að skanna nokkra miða og þar kom vinningurinn í ljós. Ég var reyndar heppinn að hafa ekki týnt veskinu mínu nokkru áður með lottómiðanum góða, en það hafði dottið út úr bílnum hjá mér og tók ég bara eftir því fyrir tilviljun.“
Kærulausi lottóspilarinn er ekki sá eini í fjölskyldunni sem hefur unnið 1. vinning í lottóinu því faðir hann vann fyrsta vinninginn árið 1993. Vinningshafinn hefur ekki ákveðið hvernig hann ætlar að verja miljónunum, en sagði að hluti þeirra færi örugglega til góðgerðarmála.