Jón Gnarr er mættur með glænýjan Kaupfélagsþátt í tilefni útgáfu nýs Bændablaðs. Í þættinum ræðir hann meðal annars kannabisræktun í Kaliforníu og réttarstörf haustsins hér á Fróni.
„Það er enn eitt reiðarslagið, það er búið að banna gestum að taka þátt í réttum!“ segir Jón þegar hann les forsíðufréttina og segir frá því að laganna verðir muni gæta þess að eingöngu bændur og þeir sem eigi fjárvon sé heimilt að taka þátt í réttarstörfunum þetta árið vegna kórónuveirufársins. „Þetta er ákveðin haustgleði, tækifæri til að hittast og treysta vinabönd og ættartengsl. Margir af höfuðborgarsvæðinu hafa það sem sið að fara í réttir til að hitta sitt fólk. Það er búið að mælast til þess að áfengi sé ekki haft um hönd, sem er nýmæli því áfengi er yfirleitt mikið haft um hönd í réttunum, sérstaklega eftir réttirnar. Ég þekki það vel því ég hef svo oft verið bílstjóri við slík tækifæri.“
Jón Gnarr segir líka frá nýrri bók sem hann er með í smíðum um íslenskt mál.
„Mér finnst staða íslenskunnar, okkar ástkæra og ylhýra tungumáls, þannig að hún þarfnast aðhlynningar. Það þarf að fríska hana upp!“