Auglýsing

Klara í Nylon:,,Var á tímabili eins og stríðsástand“

Klara Elias, söngvari og lagahöfundur, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Eftir að hafa verið með líf sitt nánast í raunveruleikaþætti fyrir framan alþjóð á Íslandi, fór hljómsveitin Nylon í víking og gerði frábæra hluti í Bretlandi. Eftir það lá leiðin til Los Angeles, þar sem Klara hefur verið síðasta áratuginn. Þær Klara, Alma og Steinunn gerðu stóran plötusamning og gerðu plötu sem mikið hafði verið lagt í þegar ákveðið var að setja hana á bið og á endanum ofan í skúffu.

,,Það var búið að dæla í okkur peningum, en svo er bara eitthvað ársfjórðungsuppgjör hjá plötufyrirtækinu og peningurinn búinn og ákveðið að setja hann í aðra listamenn. Það var heil plata tilbúin sem fór ofan í skúffu og ,,singlarnir“ voru mjög flott lög sem Bruno Mars og teymið hans sömdu með okkur. Þannig að það er ofan í skúffu plata sem við unnum með Bruno Mars og auðvitað er það skrýtið að hafa aldrei fengið að gefa hana út. En rétturinn er allur hjá plötufyrirtækinu.“

Klara segir að á tímabili hafi þær vinkonurnar verið orðnar skilgreiningin á fátækum listamönnum, þegar staðan er þannig að þú veist í raun ekki hvort þú getur borgað reikningana í lok mánaðar.

,,Við bjuggum saman þrjár í eins herbergja íbúð, en það skorti aldrei ástríðuna og okkur leið alltaf mjög vel saman í litlu íbúðinni okkar. En við sóttum okkur öll þau ,,gigg“ sem voru í boði og gerðum allt til að lifa af listinni. Ég var oft að auglýsa á ,,craigslist“ og sá einu sinni auglýsingu þar frá Armenskri poppstjörnu sem var að leita að söngkonu til að syngja með sér. Þetta var mjög vel borgað og ég hafði samband og fékk strax svar og fór svo og söng með honum í stúdíói. Hann á armensku og ég á ensku. Mjög lélega þýddan enskan texta. En þetta gigg borgaði leiguna þann mánuðinn fyrir okkur allar. Svo í kjölfarið sló þetta í gegn svo að ég var orðin fræg í Armeníu og söng í mjög mörgum brúðkaupum og veislum í samfélagi Armena í Los Angeles eftir þetta. Hann vildi reyndar aldrei syngja, heldur alltaf ,,mæma“, þannig að við komum oft fram saman og mæmuðum fyrir mannskapinn.“ 

Klara, sem varð þjóðþekkt fyrir tvítugt sem söngkona í hljómsveitinni Nylon, hefur búið í Los Angeles um árabil en segir stemmninguna þar hafa farið að súrna verulega á árinu 2020, bæði út af Covid faraldrinum, miklum óeirðum og sundrung í bandarísku samfélagi. Það varð til þess að hún ákvað að koma heim í haust.

 ,,Þetta hljómar kannski ekki stórt þegar maður er að lýsa því, en þegar þú ert svona langt í burtu og veist ekkert hvernig hlutirnir eru að fara að þróast fær maður heimþrá. Ég upplifði stöðuna á tímabili í Los Angeles eins og stríðsástand og ofan á það bættist að maður hugsaði hvað maður ætti að gera ef einhver í fjölskyldunni myndi veikjast illa. Ofan á það var alltaf verið að fella niður flug og í talsverðan tíma vissi maður ekkert hvort maður kæmist heim. Maður upplifði sig fastan og þetta var bara mjög skrýtið ástand. Á einhvern hátt upplifir maður ástandið þarna stundum eins og það sé ekki langt í borgarastyrjöld. Rosaleg ,,pólarísering“ og miklar óeirðir og bara tvær þjóðir í einu landi. Þessar óeirðir síðasta vor í Bandaríkjunum voru rosalegar, það voru vopnaðir lögreglumenn á hverju götuhorni og allar rúður brotnar í öllum búðum og enginn á götunum. Annað hvort af því þú mátt ekki fara úr húsi út af covid, eða af því að það eru svo miklar óeirðir. Við búum í hjarta Hollywood og þar fann maður rosalega fyrir þessu. En það er búið að vera á bakvið eyrað hjá mér í talsverðan tíma að koma heim og það hefur örugglega spilað inn í líka. Einhver partur af mér er búinn að vera tilbúinn í breytingar í talsverðan tíma.“

Í þættinum ræða Sölvi og Klara um Nylon ferðalagið, ástríðuna fyrir tónlistinni, stöðuna í Bandaríkjunum og margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing