Vinningshafinn sem vann rúmar 75,5 skattfrjálsar milljónir í EuroJackpot síðasta föstudag hefur nú heimsótt Íslenska getspá í Laugardalnum með vinningsmiðann góða meðferðis. Þessi verðmæti miði var keyptur í Vídeómarkaðnum í Hamraborg, Kópavogi.
Um er að ræða margviknamiða sem innihélt þrjár raðir. Eigandi miðans, sem er eldri kona, lét renna miðanum í gegnum sölukassa til að athuga hvort á honum væri vinningur. Kassinn gaf frá sér vinningshljóð og kvittun með vinningsupphæðinni, í fyrstu hélt hún að vinningurinn væri upp á
75 þúsund krónur en þegar afgreiðslumaðurinn sagði henni að líta aftur og enn betur á miðann, varð henni þá ljóst að vinningurinn væri upp á rúmar 75,5 milljónir. Hún hreinlega bæði missti andann og andlitið af gleði og kom varla upp orði fyrr en heim var komið.
Konan, sem er á leiðinni á eftirlaun segir að þessi gleðilegi vinningur eigi heldur betur eftir að koma sér vel, bæði fyrir hana og börnin hennar og hlakki hún nú til að setjast í helgan stein og vera laus við peningaáhyggjur.