Árlegt Kvennahlaup ÍSÍ í samstarfi við Sjóvá fer fram laugardaginn 13. júní á 70 stöðum víðs vegar um landið. Stærstu hlaupin eru í Garðabæ og Mosfellsbæ.
Árið 2020 er markmið hlaupsins að hvetja konur til þess að gera hlutina á eigin forsendum og nær sú hugsun langt út fyrir hlaupið og líkamsrækt. Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu. Einkunnarorð Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 2020 eru „Hlaupum saman“.
Að þessu sinni er það Linda Árnadóttir fatahönnuður sem hannar bolinn og er hann 100% endurunninn, úr endurunninni lífrænni bómull og endurunnu plasti. Bolurinn kemur í stærðum 4-6 ára, 7-8 ára, -10 ára, 11-12 ára, XS, S, M, L, XL, XXL og XXXL.
Miðasala fyrir hlaupið sem og bolasala er á www.tix.is en einnig er hægt að nálgast boli í versluninni Scintilla Laugavegi 40, í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, versluninni Barr Living á Garðatorgi, hjá UMF Selfoss í Tíbrá, sundlauginni Jaðarsbökkum Akranesi, skrifstofu ÍSÍ í Íþróttahöllinni Akureyri og hjá Leturstofunni í Vestmannaeyjum.
Nánari upplýsingar um alla hlaupastaði og tímasetningar er að finna á www.kvennahlaup.is.