Andrea Margeirsdóttir hafði farið áfram á hörkunni eins og mörgum er svo gjarnan tamt og að því kom að hún fór í örmögnun. Hún leitaði sér leiða í átt að bata, bæði hefðbundinna og óhefðbundinna leiða, og er nú sjálf meðferðaraðili þar sem hún aðstoðar fólk við að öðlast betri líkamlegri og andlegri líðan. Hún viðurkennir að sér hafi fundist hálf kaldhæðnislegt að hún, sem hafði starfað sem félagsráðgjafi, jógakennari og meðferðaraðili, gæti ekki hjálpað sjálfri sér við að komast út úr þeim aðstæðum sem hún hafi verið komin í. En sjálfsvinnan spyr hvorki um stétt né stöðu og tekur í raun engan enda.
Þetta gerðist svolítið hægt,“ segir Andrea og býður blaðamanni til sætis á björtu og fallegu heimili sínu í Reykjavík. „Lífið hafði rétt mér alls konar verkefni, sum hver mjög erfið sem tóku mikið á, en ég hafði farið áfram á hörkunni eins og við gerum svo gjarnan. Haustið 2019 kom svo að því að ég gat ekki meir og fór í örmögnun. Allt í einu var ég algjörlega búin á því, líkamlega og andlega, og var bara skugginn af sjálfri mér. Líkami og sál sögðu hingað og ekki lengra og það var hreinlega eins og það hefði verið slökkt á mér. Ég varð mikið veik og komst varla fram úr rúminu. Ég sá enga leið út úr þessu og missti alla von. Ég hafði áður misst taktinn í lífinu, en aldrei eins og á þessu tímabili.“ Veikindin stóðu yfir í um tvö og hálft ár og Andrea segist hafa hugsað með sér að það væri hálf kaldhæðnislegt að hún, sem væri búin að vera að vinna við að hjálpa fólki í mörg ár og vissi vel af þeim verkfærum sem hægt væri að nýta sér í átt til bata, gæti ekki hjálpað sjálfri sér. En hvað varð til þess að hún náði að spyrna í botninn og komast út úr þessum veikindum og þessari miklu vanlíðan? „Það tók mig svolítinn tíma að leita mér hjálpar en að því kom að ég gerði það. Stundum getur orsökin fyrir svona vanlíðan verið áföll sem hafa dunið á okkur eða vanlíðanin jafnvel verið vegna þess að okkur vantar einhver ákveðin efni eða hormón í líkamann og þannig var það til dæmis í mínu tilfelli. Ég fékk viðeigandi aðstoð og með tímanum fór hugurinn minn að styrkjast og líkaminn líka. Ég nýtti mér bæði hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í í átt að bata. Það er erfitt að stíga út úr því sem maður þekkir, þar sem öryggið manns er. Mitt öryggi var einhvern veginn falið í því að líða vel illa, vegna þess að það var það sem ég þekkti á þessu tímabili. Það var bara það sem ég var orðin vön og ég hélt að ég myndi aldrei komast út úr þessum veikindum. En í dag er þetta erfiða tímabil drifkrafturinn í minni vinnu með fólk; það skiptir mig máli að geta hjálpað fólki að finna leið út úr vanlíðan, af hvaða tagi sem hún er, líkamleg eða andleg. Ég veit að það er til leið út úr henni. Það er alltaf von.“
„Stundum þarf fólk bara að finna hlýju“
Andrea segist sjá það hjá sínum skjólstæðingum hversu algeng svona örmögnun er, sérstaklega núna eftir COVID. „Margir áttu ofboðslega erfitt með einangrunina og að vera svona mikið heima. Ég reyndar tek eftir því hjá þeim sem koma til mín, að þeir sem voru að vinna langa daga í streituvaldandi umhverfi tóku þessu svolítið fagnandi, fannst gott að vinna heima, vera meira með fjölskyldunni og náðu þannig að draga aðeins úr streituvaldandi áhrifum. Hins vegar reyndist þetta tímabil þeim mjög erfitt sem höfðu til dæmis verið að kljást við líkamleg veikindi, kvíða eða þunglyndi af því að þegar maður er í þeim aðstæðum er ekki gott að vera of mikið einn og þá ætti maður einmitt alls ekki að vera of mikið einn. Það geta verið rosalega þung skref að leita sér hjálpar en maður verður alltaf að halda áfram að leita. Ef þú ert ekki sáttur við svörin sem þú færð hjá lækninum sem þú fórst til, þá áttu bara að leita til annars. Það sama er að segja ef þú ferð til meðferðaraðila sem þú ert ósáttur við. Þú verður að halda áfram að leita og stundum er nauðsynlegt að fara út fyrir þægindarammann. Þess vegna er ég svo ánægð með þá sem koma til mín og hafa aldrei prófað eitthvað óhefðbundið; að þeir hafi ekki gefist upp á leitinni. Það sama hentar ekki öllum og stundum þarf maður að finna sína leið. Mér finnst fólk þurfa að bera meiri virðingu fyrir því að við erum ekki öll eins og ekki öll að leita að því sama. Líklega verður óhefðbundna leiðin alltaf dálítið feimnismál og það er allt í lagi en aðalatriðið er að við berum virðingu fyrir þeim leiðum sem fólk velur sér og þeim meðferðaraðilum sem eru að vinna við þetta. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem trúa ekki á það sem er okkur ósýnilegt, það er bara allt í góðu en mér finnst mega bera meiri virðingu fyrir þeim sem finnst hið óhefðbundna hjálpa sér. Við erum svo fljót að dæma og setja fólk í einhverja kassa. Við pössum ekki öll í sömu kassana. Fólk á að geta leitað í þá hjálp sem það finnur að virkar, allt sem lætur fólki líða betur er af hinu góða. Stundum þarf fólk bara að finna að það sé hlustað á það og að einhverjum sé ekki sama. Stundum þarf fólk bara að finna hlýju. Því finnst mér of oft ábótavant í heilbrigðiskerfinu okkar, með fullri virðingu fyrir mörgu því frábæra fagfólki sem starfar þar. Ég þekki sjálf dæmi, vegna veikinda föður míns, þar sem líkamlegri umönnun var ekki ábótavant en andleg umönnun var lítil sem engin. Einungis líkamleg umönnun er langt frá því að vera nóg. Það þarf líka að huga að örvun huga og sálar þegar fólk er veikt.“
Fylgir innsæinu og hlustar á það sem kemur til hennar
Andrea er með BA-gráðu í sálfræði og starfsréttindi í félagsráðgjöf. Eftir útskrift úr Háskóla Íslands starfaði hún sem félagsráðgjafi. Auk þess er hún jógakennari. Í dag tekur hún á móti skjólstæðingum sem meðferðaraðili og er með aðstöðu í Skipholti 50d. Hún segist eiga erfitt með að útskýra nákvæmlega út á hvað starf hennar sem meðferðaraðili gangi. „Ég blanda saman mínum akademíska grunni í sálfræði, sem félagsráðgjafi og þessu óhefðbundna sem er stór þáttur í minni vinnu. Sjálfsagt finnst einhverjum ekki rétt að blanda þessu saman en þetta er mín leið til að hjálpa þeim sem til mín leita og hefur reynst vel hingað til og það er það sem skiptir mig mestu máli. Ég veit í raun aldrei hvernig hver tími verður en ég byrja þó alltaf á því að setjast niður með viðkomandi og við spjöllum saman því mér finnst mikilvægt að kynnast þeim sem til mín koma. Stundum er það langt spjall, stundum stutt. Svo er ég með bekk sem ég býð viðkomandi að leggjast á og ég tengi mig inn á hann til að nema það sem er að gerast. Vinnan á bekknum er svolítið misjöfn og fer eftir hverjum og einum skjólstæðingi.“ Hún þagnar um stund og það er greinilegt að hún er að leita að réttu orðunum áður en hún heldur áfram: „Ég get bara ekki útskýrt þetta almennilega. Það eru ekki einu sinni allir í mínu nærumhverfi sem vita enn þá hvernig ég vinn nákvæmlega. Líklega lýsa umsagnir skjólstæðinga minna á Facebook síðunni minni, Í átt að betri líðan, þessu einna best. Ég fylgi í raun bara mínu hjarta og innsæi og hlusta eftir því sem kemur til mín.“ Hún segir akademíska þáttinn í sér mjög sterkan en að sá óhefðbundni sé það líka. En hvernig kom það til að hún fór að blanda þessu tvennu saman? „Það eiginlega bara gerðist, ég ætlaði alls ekkert að gera það upphaflega. Ég rak Yogasmiðjuna í nokkur ár og þar voru nokkrir meðferðaraðilar með aðstöðu sína sem ég kynntist og sá hvað þeir voru að gera góða hluti. Samhliða kynntist ég góðum kennurum á þessu sviði sem hvöttu mig áfram þennan veg sem ég var byrjuð að feta í minni óhefðbundnu vinnu. Hjá þeim fékk ég þjálfun, skilning og hvatningu að halda áfram.“
Andleg mál aldrei tabú á æskuheimilinu
Eftir því sem Andrea sá hversu vel þetta virkaði á bæði hana og hennar nánustu ákvað hún að fara að vinna sem meðferðaraðili og smám saman vatt þetta upp á sig. Ástæða þess að blaðamaður ákvað að ræða við Andreu er sú að hann þekkir marga sem hafa leitað til hennar og bera henni vel söguna, og sögurnar eru margar hverjar alveg ótrúlegar. „Þakka þér fyrir það,“ segir Andrea hógvær þegar blaðamaður nefnir þetta. „Mér finnast það mikil forréttindi að kynnast þessu góða fólki sem kemur til mín og mér er annt um að því líði betur. Ég verð þess vegna bæði þakklát og glöð þegar ég heyri að skjólstæðingum mínum líði betur eftir að hafa komið til mín. Þetta er rosalega gefandi og ég hef ótrúlega gaman af því sem ég er að gera en ef ég sæi ekki árangur, væri ég ekki að þessu. Ég viðurkenni að áður velti ég því stundum fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að fara að vinna hefðbundna vinnu frá 9-5 en ég finn það núna að þetta er það sem ég vil gera og þarf að gera. Ég kemst nær fólki til að hjálpa því en ég gerði áður í starfi mínu sem félagsráðgjafi. Mér finnst ég geta gert meira fyrir fólk núna.“
Hverjar eru helstu ástæður þess að fólk leitar til þín og er þetta fólk á öllum aldri?
„Það er mjög misjafnt. Sumir koma vegna líkamlegra veikinda, aðrir vegna andlegrar vanlíðanar, sumir vegna samskiptaörðugleika eða vegna örmögnunar, kvíða, þunglyndis … Þetta er í raun bara allur skalinn og aldur skiptir engu máli. Yngsti skjólstæðingurinn sem hefur verið hjá mér var sjö eða átta ára og sá elsti 83 ára. Maður er alltaf að vinna í sjálfum sér og það er aldrei of seint að byrja að vinna í sér. Sjálfsvinnan stoppar aldrei.“
Nú hef ég heyrt frá þeim sem ég hef talað við um meðferðina þína að þú sjáir meira en margur, þú hafir jafnvel sagt hluti sem bókstaflega enginn ætti mögulega að geta vitað?
„Það er í raun hluti af mér sem hefur vaxið með tímanum,“ segir hún dularfull á svip, „en þó ekki þannig að ég tali um það, fyrr en kannski núna, eða það hafi truflað mig eða neitt þannig. Fyrir mér er þetta líklega bara allt svo eðlilegt því ég var alin upp á heimili þar sem andleg mál voru ekkert tabú. Amma mín, sem ég er skírð í höfuðið á, var til dæmis mjög opin fyrir andlegum málefnum og það voru líka bæði mamma mín og pabbi. Þannig að ég þekkti eiginlega ekki annað en þetta væri bara hluti af lífinu. Sem dæmi; ég var með barnamígreni þegar ég var lítil og ég man eftir því að mamma fór með mig til manns sem hún sagði mér engin deili á, bara að ég ætti að sitja þarna á stól og hann ætlaði að hjálpa mér. Ég fór til þessa manns og spáði ekki í þetta en í dag veit ég að þetta var heilari og maður sem sá meira en margur. Mamma var tilbúin að leita allra leiða fyrir mig svo mér myndi líða betur.“
Líkaminn reynir að vara okkur við
Sem fyrr segir er Andrea einnig jógakennari. Hún segir jógað líka hafa hjálpað sér í erfiðleikum og ekki síst djúpslökun og hugleiðsla. „Þetta tvennt er gríðarlega öflugt hjálpartæki. Rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að stunda djúpslökun og hugleiðslu reglulega getur maður meðal annars minnkað bólgur í líkamanum, streitu, kvíða, þunglyndi og lækkað blóðþrýsting. Það gleymist stundum að við þurfum að styrkja hugann. Við förum í líkamsrækt til að styrkja líkamann og höldum svo oft að við þurfum að hamast í ræktinni en stundum er líka í lagi að liggja bara á dýnunni og gera ekki neitt annað en taka á móti. Ótrúlegir hlutir geta gerst. Þegar ég byrjaði sjálf að stunda jóga á sínum tíma fannst mér frábært að gera æfingarnar en ég fann svo greinilega hvað mér leið alltaf ótrúlega vel eftir tímann. Mér fannst ég einhvern veginn komast nær innri kyrrð; það var ekki lengur þessi óróleiki í mér sem hafði verið áður. Vissulega koma dagar þar sem óróleiki og streita taka yfir, en djúpslökun og hugleiðsla eru sterk verkfæri sem geta hjálpað og styrkt huga, taugakerfið og líkamann allan.“
Það er auðheyrt á Andreu að velferð skjólstæðinga hennar skiptir hana miklu máli. Skyldi þessi vinna ekki stundum taka á hana? „Ég viðurkenni að hún gat gert það þegar ég var að byrja og ég tók stundum inn á mig það sem ég heyrði og skynjaði. En ég fékk góða hjálp frá góðum kennurum við að læra inn á það að brynja mig fyrir því og leita enn í dag til einhverra þeirra ef ég þarf á að halda.“
„Leiðin í átt að betri líðan er ekki bein, þetta eru mörg skref, stundum tvö skref áfram og svo eitt skref aftur á bak en áfram verðum við að halda þótt það geti verið ólýsanlega erfitt stundum.“
Viðtalið má finna í heild sinni á vef Birtings.
Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi