Alvarlegt umferðarslys varð í gærmorgun þegar bifreið fór út af veginum í Skötufirði og hafnaði í sjónum. Fjölskyldan sem var í bílnum, hjón með ungt barn, var flutt með þyrlum landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Landspítalnum.
Konan lést seint í gærkvöldi á gjörgæsludeild Landspítalans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
„Nafn hennar er Kamila Majewska og var á þrítugsaldri. Eiginmaður hennar og ungt barn njóta læknisaðstoðar í Reykjavík og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar um líðan þeirra.
Kamila og fjölskylda voru búsett á Flateyri og voru að koma frá Póllandi skömmu áður en slysið varð,“ segir í tilkynningunni. Lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar votta fjölskyldu og vinum Kamilu sína dýpstu samúð.