Erlendur ferðamaður lét ófriðlega í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi, nánar tiltekið á Laugavegi. Að sögn lögreglu reyndi maðurinn, sem var ölvaður, meðal annars að stofna til slagsmála.
Við nánari athugun reyndist maðurinn nýkominn til landsins og átti því að vera í sóttkví.
„Maðurinn var mjög ölvaður og var með dólg við lögreglumenn og neitaði að gefa upp nafn og hafði engin skilríki,“ segir í skeyti lögreglu.
Einnig þurfti lögregla að hafa afskipti af þremur erlendum ferðamönnum, sem staddir voru á veitingahúsi í miðborginni í gærkvöldi. Voru þeir einnig nýkomnir til landsins og áttu að vera í sóttkví. Fólkið var handtekið og fært á lögreglustöð. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á fólkið bókað flug frá landinu á morgun.