„Líf mitt er bara eitt stórt púsluspil, svona lífstíll væri ávísun á magasár fyrir fólk sem er í kassanum því allir dagar hjá mér eru óvissuferð. Ég er að gera það sem ég elska og það bitnar ekki á syni mínum,“ segir Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leikkona og söngkona sem er í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar.
Þórdís Björk ræðir þar meðal annars um móðurhlutverkið og fjarveruna frá syninum þegar hún sinnir vinnu sinni á Akureyri hjá Leikfélagi Akureyrar. Þórdís Björk segir fjarveruna þó alltaf erfiða og samviskubit yfir móðurhlutverkinu til staðar alveg frá fæðingu sonarins. „Þegar maður er með lítil skilnaðarbörn er tíminn takmarkaður, hann er hjá pabba sínum ákveðna daga og mér ákveðna daga. Þegar ég er með hann þá er ég bara með hann og reyni að forgangsraða tíma mínum þannig. Fjölskyldan hefur líka verið dugleg að koma með soninn norður. „Þá er ég með honum þegar ég er ekki að vinna. Ég er þakklát og veit að það er best fyrir barnið mitt að ég sé hamingjusöm, líði vel og rækti mína hamingju. Þannig get ég hugsað vel um hann. Allt sem ég geri er fyrir hann.“
Hægt er að lesa nýjasta tölublað Vikunnar og viðtalið við Þórdísi á áskriftarvef Birtings. Sjö daga frí áskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.