Auglýsing

Líkindin við atvinnuviðtöl og stefnumót

Vera Sófusdóttir skrifar:

Ein vinkona mín líkir fyrsta stefnumóti við atvinnuviðtal og mér finnst það ágæt samlíking. Mann langar að sýna sínar bestu hliðar og „fá giggið“.

Það þurfa samt margir hlutir að smella saman, það er ekki nóg að spyrja bara réttu spurninganna eða vera sæt/t/ur, það þarf líka einhvers konar tenging að eiga sér stað og það skiptir máli hvernig maður svarar og hvernig maður ber sig.

Þótt mér finnist lítið mál að kynnast nýju fólki getur samt komið upp sú staða að ég fái fiðring í magann áður en ég hitti fólk í fyrsta sinn, bæði af tilhlökkun og stressi. Sumum finnst erfitt að finna út úr því í hverju þeir eiga að vera á fyrsta stefnumótinu en ég kann ráð við því. Ég nefnilega á sérstök „föt-fyrir-fyrsta-stefnumótið“ og þarf aldrei að standa sveitt fyrir framan spegilinn og rífa mig úr hverri spjörinni af annarri til að máta aðra. Eina sem ég pæli í eru aðstæðurnar, þ.e. hvort stefnumótið verði t.d. á kaffihúsi eða á bar.



Hlustaðu af athygli

Góðar samræður snúast um að hlusta á hinn aðilann. Ég á margar sögur um gaura sem hafa talað út í hið óendanlega, um sjálfa sig og sínar fyrrverandi og guð má vita hvað, og það þarf varla að taka það fram að áhuginn á framhaldi var núll af minni hálfu. Og nota bene, það að sitja og bíða eftir því að koma þínu að eða leggja á minnið það sem þú ætlar að segja eða spyrja að er ekki góð hlustun. Þegar þú virkilega hlustar á það sem verið er að segja, jafnvel þótt það veki ekki gríðarlegan áhuga hjá þér, þá eiga samræðurnar, og mögulega meira samband, meiri möguleika á að haldast á floti en ef þú myndir missa athyglina og fara að hugsa um eitthvað allt annað en það sem væri að gerast á þessu augnabliki.

Það eru líka meiri líkur á því að þú getir haldið uppi samræðum og spurt spurninga sem snúast um það sem verið er að ræða og þá verða samræðurnar auðvitað í meira flæði og miklu áhugaverðari og skemmtilegri. Mér finnst sjálfri líka alltaf kúl þegar hinn aðilinn sýnir að hann hafi verið að hlusta af athygli og spyr mig út í eitthvað sem ég sagði jafnvel bara í byrjun. Mér finnst það sýna að hann hafi áhuga á því sem ég er að segja, og áhuga á mér.

„Það er auðvitað gott og blessað að vita að þið séuð bæði Framarar eða takið ís í brauðformi fram yfir Bragðaref en það ristir frekar grunnt.“


 Spurningaflóðið mikla

Það getur verið pínu erfitt fyrir suma að koma samræðunum í gang og nokkrar vinkonur mínar hafa talað um það. Á að spyrja um uppáhaldsmatinn? Hvort hann vilji ananas á pítsuna eða hver áhugamálin séu? Jú, það er auðvitað gott og blessað og fínt að vita að þið séuð bæði Framarar eða takið ís í brauðformi fram yfir Bragðaref en það ristir frekar grunnt. Svo má líka hafa dálítið gaman, spyrja að einhverju sem vekur kátínu eða heldur samræðunum gangandi. Spurningar sem bjóða upp á einfalt „já“ eða „nei“ sem svar eru t.d. ekki líklegar til að halda þeim lengi á floti.

Spurningar sem gefa þér einhverja mynd af viðkomandi, eins og til dæmis varðandi áhugamál, gildi hans í lífinu og hvað hann geri í frítímanum ættu að gefa manni ágætis mynd af viðkomandi.

Það verður samt að passa að drekkja fólki ekki alveg í spurningaflóði og gefa því rými til að svara, jafnvel þarf fólk smávegis tíma til að melta spurninguna áður en það svarar. Ég man eftir stefnumóti með manni sem spurði svo margra spurninga að ég var varla búin að svara einni þegar sú næsta dundi á mér. Á meðan ég var að svara hummaði hann svo „a-ha, a-ha“ og kinkaði kolli eins og hann vissi nú þegar svarið. Stefnumótin með honum urðu ekki fleiri.

Þetta er brot úr lengri grein úr Vikunni.
Finna má hana í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing