Lokasýningarhelgi á sýningunni „Ég veit núna – fjórar athuganir“ eftir Jóhannes Dagsson.
Á sýningunni sýnir Jóhannes samnefnt vídeóverk. Verkið samanstendur af skrásetningum á athugunum á samspili hlutar og ljóss. Hlutir og hugmyndir okkar um þá mótast að miklu leyti af því samhengi sem þeir eru staðsettir í hverju sinni. Sami efnishluturinn tekur á sig ólík hlutverk, og fær jafnvel mismunandi nöfn eftir því hvernig hann er staðsettur. Þetta á við í hversdagslegum heimi daglegrar reynslu og magnast enn upp í samhengi vinnustofunnar, þar sem listamaðurinn tekur sér vald til að umbreyta merkingu og veru hlutanna, og setur upp sínar eigin leikmyndir og aðstæður. Í þessu samhengi er hluturinn bæði hversdagslegur og framandi og hlutverk hans bæði óstöðugt og eðlislægt.
Ég veit núna / fjórar athuganir
I.
Ég hafði leitað að aðferð eða nálgun (jafnvel myndhverfingu) til að fjalla um andartakið sem tekur við eftir að vananum sleppir, eftir að heimasmíðaðar reglur ná ekki lengra, þar sem aðferðin á ekki við. Ég var búinn að bera kennsl á það í upplifuninni, einangra það frá öðrum þáttum reynslunnar en leitaði að efni til að fella það í.
Leitin fór aðallega fram í gönguferðum, stefnulausu ráfi um götur og gróður og tilviljunarkenndum athugunum á umhverfinu. Þegar þetta skilaði ekki árangri leitaði ég á náðir textans og orðsins. Fyrsta haldgóða vísbendingin var í nokkrum stuttum ljóðlínum;
Ég veit núna hver sofnar og vaknar
í mínu höfði.
II.
Í Nýja Atlantis eftir Fancis Bacon koma hraktir sæfarendur að ókunnri strönd. Áður en þeir fá leyfi innfæddra til þess að kynna sér gæði og gjafir landsins, eru þeir skyldaðir til að halda kyrru fyrir í þrjá daga í húsi ókunnugra. Þeir koma sér sér fyrir í húsinu með aðstoð gestgjafanna. Þeir halda kyrru fyrir og í þessu hléi í framrásinni hafa þeir aðeins innanstokksmuni húsins fyrir augum.2
Jóhannes Dagsson