Auglýsing

„Mamma ég held ég eigi ekki mikið eftir. Ég held ég nái ekki að fá lungun mín.“

Eygló Guðmundsdóttir, sálfræðingur og þriggja barna móðir, ræddi nýlega við Frosta Logason í hlaðvarpinu „Spjallið með Frosta.“ á streymisveitunni Brotkast.

Þar opnaði hún sig um erfiðustu áskoranir lífs síns, þar á meðal baráttu yngsta sonar hennar, Benjamíns Nökkva Björnssonar, við alvarleg veikindi.

Benjamín greindist með mjög illvígt ungbarnakrabbamein þegar hann var aðeins 9 vikna gamall.

Fyrir tveggja ára aldur hafði hann gengist undir tvær beinmergsskiptingar sem á endanum leiddu til þess að hann losnaði við meinið.

Eygló Guðmundsdóttir, móðir Benjamíns

Ný veikindi tóku við

Hins vegar tóku ný vandamál við, þar sem lífshættulegur sjúkdómur herjaði á lungu hans.

Þrátt fyrir erfið veikindi hélt Benjamín glaðværð sinni og var hann alltaf brosandi samkvæmt Eygló.

Líf hans var þó markað af sjúkrahúsheimsóknum og miklum áskorunum en hann lét ekkert stoppa sig í að skapa fallegar minningar fyrir þá sem honum kynntust.

Þann 1.maí 2015 lést Benjamín aðeins 12 ára gamall en arfleifð hans lifir áfram í hjörtum fjölskyldu hans og vina.

Fallega leiðið hans Benjamíns

Hrakaði hratt seinasta mánuðinn

Eygló segir að Benjamín hafi hrakað hratt seinasta mánuðinn og þó að hún hafi alltaf haldið í vonina hafi það runnið upp fyrir henni hvað væri í uppsiglingu.

Hún segir að þó enginn fái að vera á biðlista eftir lungum ef ekki er talið að sá geti lifað lungnaígræðslu af hafi hún verið farin að sjá raunveruleikann.

„Ég dett í einhvern raunveruleika þessa síðustu viku og átta mig á að þó hann hafi verið metinn hæfur til lungnaskipta 14 mánuður áður. Er hann eitthvað í standi í dag til að fá ný lungu?“

Vissi að hann væri að fara að deyja

Þáttastjórnandi spyr Eygló að því hvenær Benjamín hafi gert sér grein fyrir því að hann væri að fara að deyja.

„Veistu amma, ég held ég þurfi að pakka í töskur og flytja upp í skýin.“

„Daginn sem hann dó. Þá veit ég að hann vissi það, af því hann sagði það bara. Hann var búinn að tala alla þessu viku um þetta, fór varlega inn í það, lífið og eitthvað svona og miklar pælingar.“

Eygló segir að Benjamín hafi beðið um að hringja í ömmu sína sem bjó fyrir vestan en hún hafi ekki fengið að vita fyrr en nokkrum dögum seinna hvað hann hafi sagt ömmu sinni.
„Veistu amma, ég held ég þurfi að pakka í töskur og flytja upp í skýin.“

Þau mæðgin á góðri stundu

Þennan sama dag hafi hún legið með syni sínum að bíða eftir lækninum en Benjamín snýr sér þá að móður sinni og segir við hana: „Mamma ég held ég eigi ekki mikið eftir. Ég held ég nái ekki að fá lungun mín.“

Þrátt fyrir sínar eigin þjáningar var Benjamín bara að hugsa um móður sína á þessari stundu.

„Finnst þér erfitt að ég hafi sagt þetta?“ spurði Benjamín móður sína.

Hún segir að auðvitað hafi byrjað að leka tár hjá þeim báðum en þau hafi legið þétt saman og haldist í hendur.

„Nei. Auðvitað er ég leið, en mér finnst gott að þú talir um þetta.“

Þú ert bara til staðar fyrir barnið þitt

Eygló segir að líðan sín á þeim tíma hafi verið sú að hún hafi þurft að vera til staðar fyrir barnið sitt og því gerði hún einmitt það.

Aðspurð segir Eygló að hún hafi þá vitað að Benjamín hefði rétt fyrir sér þó svo að hún hafi ekki átt von á að það myndi gerast svona fljótt.

Hún segir að svo virðist vera sem sonur hennar hafi þurft að vita að það yrði í lagi með þau áður en hann gat sleppt takinu.

„Æi mamma skiptir ekki máli. Ég segi þér þetta bara á morgun, ég er svo rosalega þreyttur núna og ætla aðeins að hvíla mig.“ sagði Benjamín við mömmu sína áður en hann lagðist út af.

Þetta urðu hans síðustu orð og Eygló segir að þau hafi gefið sér svo mikið.

„Þessi orð gáfu mér svo mikið, í alvörunni.Ekki eitthvað svona Instagram-senu shit sko heldur bara, við eigum ekkert alltaf ‚á morgun‘. Við vitum ekkert hvort við eigum ‚á morgun‘.

Eygló segir þetta hafa kennt henni að meta lífið og það sem mikilvægt er því morgundagurinn sé ekki sjálfsagður hlutur.

Bók um baráttuna og minningarnar

Eygló hefur undanfarið unnið að skrifum bókar sem segir frá lífi Benjamíns, baráttu hans við veikindi og því ferli sem fjölskyldan fór í gegnum.

Bókin er ætluð til að veita von og innblástur fyrir aðra sem glíma við erfiðleika.

Til að fjármagna útgáfu bókarinnar hefur Eygló hafið hópfjármögnun á Karolinafund og vonast til að bókin geti náð til breiðs hóps og hjálpað öðrum fjölskyldum sem upplifa svipaðar áskoranir.

Þetta er einstök saga um styrk, ást og samstöðu sem mun eflaust snerta við hjörtum lesenda þegar bókin kemur út.

Söfnunin á Karolina fund

Hægt er að finna allar upplýsingar um söfnunina á karolinafund síðu Eyglóar, sem og skemmtilegar sögur af Benjamín og fjölskyldu hans.

Smellið hér til að fara inn á Karolinafund söfnun Eyglóar

Þar má lesa minningarorð Eyglóar til sonar síns og einnig það sem hún skrifar til hans þegar fimm og tíu ár eru liðin frá því að hann kvaddi.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing