Auglýsing

Margrét segir hvatvísina koma sér í vandræði: „Ég get alveg gert mis­tök“

„Ég geri mér grein fyrir því að ég er mjög af­dráttar­laus í skoðunum og að mörgum líkar ekki við það. En mér finnst ekki eðli­legt að fólk ráðist í­trekað á mig per­sónu­lega bara af því að það er ó­sam­mála skoðunum mínum. Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Ég man eftir tíma­bili á Ís­landi þar sem fólk gat verið ó­sam­mála án þess að hata hvort annað. Það er eitt­hvað búið að gerast á síðustu árum sem veldur því að það verður mjög oft per­sónu­legt ef fólk er ó­sam­mála.“

Þetta segir Margrét Friðriksdóttir. Hún hefur lengi þótt um­deild fyrir skoðanir sínar og viður­kennir hún að á köflum hafi hún ef til vill gengið að­eins of langt í að sækja í átök.

„Ég get alveg gert mis­tök og þegar ég geri mis­tök vil ég geta séð að mér og beðist af­sökunar. Ef ég hef farið yfir strikið biðst ég af­sökunar á því. Við getum öll farið yfir strikið í hita leiksins. Ég er hvat­vís og það hefur stundum komið mér í vand­ræði. En stundum finnst mér eins og það sé ekki einu sinni tekið til greina þegar maður biðst af­sökunar. Það er auð­vitað sorg­legt að við á þessu pínu­litla landi séum oft svona mikið að hatast út í hvort annað.“

Margrét er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttar Sölva Tryggva og opnar sig um hvatvísi, umdeildu skoðanir sínar og miðil sinn, frettin.is. Margrét segir í þættinum frá tíma­bilinu þar sem hún flakkaði um allt Ind­land að skoða trúar­brögð.

„Ég var búin að vera í and­legu þroti í mörg ár og endaði á því að fara til Ind­lands, þar sem ég náði loksins að byrja að byrja að byggja mig upp. Ég ferðaðist um allt Ind­land og var þar lengi, bæði í Góa, uppi hjá Himala­ya-fjöllunum, í Varanasi og á fleiri stöðum. Ind­land er nánast eins og mið­stöð af alls konar trúar­brögðum og ég fór að leita mikið og prófaði mig á­fram í fleiri en einni tegund af trúar­brögðum. Ég skoðaði helstu hofin hjá Hindúum og fór síðan til Manali þar sem Dalai Lama býr til að kynna mér búddis­mann. Svo kynntist ég Ísraelum og og fór með þeim að skoða Synagógur með þeim.

Í raun kynnti ég mér flest trúar­brögð önnur en þau sem ég ólst upp með á Ís­landi. Þess vegna er það hálf fyndið að ég hafi síðan endað á að finna mig í kristninni. Fyrst var ég mjög lokuð þegar mér var gefin biblía og tengdi kirkjuna fyrst og fremst við skírn og jarðar­farir. En síðan gerist það að ég verð fyrir upp­lifunum sem sann­færðu mig al­gjör­lega og eftir það hefur ekki verið aftur snúið.“

Þegar Margrét er spurð hvort miðillinn hennar sé ekki útbúinn að búa til pólariseringu vill hún ekki alveg játa því, en segir að vissu­lega sé mark­miðið að vera hinum megin við línuna.

„Ég get alveg játað því að við erum að segja fréttir sem eru ekki sagðar annars staðar og þar af leiðandi erum við auð­vitað á hinum pólnum miðað við aðra fjöl­miðla. En ég lít bara svo á að það sé nóg af hinum miðlunum, en ein­hver þurfi að taka að sér það hlut­verk sem við erum í,“ segir Margrét, sem segir það hark að reka fjöl­miðil á Ís­landi.

„Við fengum í byrjun fjár­festi á bak­við okkur og fengum að­stoð með hús­næði og því­um­líkt, en við höfum mest reynt að treysta á al­menning. En það er auð­vitað hark að reka fjöl­miðil á Ís­landi og það verður lík­lega enginn ríkur á því.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing