Á laugardaginn næstkomandi, 14.september, verður haldin í áttunda sinn matarhátíðin Reykjavík Food Festival.
Upphaflega byrjaði þetta sem beikonhátíð en hefur nú þróast í alhliða matarhátíð.
„Stemningin er alltaf gríðarlega skemmtileg og það er svo gaman að sjá hvað matur tengir fólk saman. Það er svo mikil gleði og gaman að sjá hvað allir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg,“ segir Árni en hátíðin er haldin í samstarfi við Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins auk fjölda fyrirtækja.
Alls munu tólf veitingastaðir úr borginni bjóða upp á veitingar gegn vægu gjaldi. Hægt verður að kaupa fjóra miða á 1500 krónur. Ágóði af miðasölunni í ár rennur til góðgerðamála og eru það Barnamenningarmiðlun Nýlistasafnsins og Einhverfusamtökin sem hljóta styrkinn.
Þeir veitingastaðir sem verða með veitingabása á hátíðinni eru Kol, Sjávargrillið, Matarkjallarinn, Fjárhúsið, Loki, Salka, Krúa Thaí, Block Burgers, Himalayan Spice og Eldur og ís auk tveggja veitingabása bandaríska meistarakokksins Doms Iannarellis frá Iowa.
Þetta kom fram á vef Mbl.