Auglýsing

„Mér finnst fullkomlega út úr korti að koma og standa fyrir utan heimili fólks í tíma og ótíma“

Ágústa Johnson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í Podcasti Sölva. Ágústa, sem er einn stærsti frumkvöðull í heilsurækt á Íslandi, var á leið í nám í arkítektúr þegar hún ákvað að skipta um takt og elta ástríðuna.

Þau Sölvi fara meðal annars yfir feril Ágústu í þættinum og þau ræða einnig óskemmtilega hluti eins og þegar mótmælendur stóðu og mótmæltu eiginmanni hennar fyrir utan heimili þeirra eftir hrunið.

„Mér fannst þetta breytast í hruninu og harkan jókst. Við fjölskyldan urðum þá til dæmis fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að það var staðið fyrir utan heimilið okkar og mótmælt. Það er eitt af því óskemmtilegra sem maður hefur upplifað. Að hafa fólk standandi fyrir utan heimilið þitt í langan tíma með andúð gagnvart þér og þínum er mun meira þrúgandi en maður getur ímyndað sér ef maður hefur ekki upplifað það. Þetta voru líklega tvær vikur sem þetta stóð yfir og það var stundum hringt á bjöllunni og spurt eftir Gulla [Guðlaugi Þór Þórðarsyni] og oft fóru börnin til dyra. Og húsið okkar var þannig að það eru gluggar á öllum hliðum og það var engin leið að reyna að „blokkera“ þetta frá sér. Fólk gegnir þessum störfum að vera í stjórnmálum og verður að þola gagnrýni, en mér finnst fullkomlega út úr korti að koma og standa fyrir utan heimili fólks í tíma og ótíma,“ segir Ágústa.

Ágústa, sem hefur verið í fyrirtækjarekstri í áratugi, hefur aldrei upplifað neitt í líkingu við árið 2020. 

„Þetta ár er heldur betur búið að vera öðruvísi en ég reiknaði með. Það hefur gengið vel síðustu ár og fyrirtækið búið að vera á uppleið og ég var búinn að bíta það í mig að árið 2020 yrði besta árið í sögu fyrirtækisins. En þetta er orðið versta ár sem ég hef upplifað síðan ég byrjaði í viðskiptum. Við þurftum að loka í tvo mánuði samfellt og núna aftur, þetta er auðvitað bara ömurlegt. Við erum að tapa milljónum á dag og þetta ár er í einu orði sagt bara farið í skrúfuna. En fyrirtækið stendur sterkt og við munum fara í gegnum þetta,“ segir hún.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan. Þú getur einnig hlustað á hann á Spotify.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing