Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er 31 árs að aldri og situr í stóli háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hún er uppalinn Reykvíkingur, lögfræðingur að mennt og hefur að eigin sögn mikla ástríðu fyrir tækifærum á Íslandi, vinum, fjölskyldu og ekki síður hestum. Áslaug er hæfilega mikið jólabarn og segist ekki vera íhaldsöm þegar kemur að jólahefðum. Hún er óhrædd við að bregða út af vananum og reynir að lágmarka stressið um hátíðirnar eins og mögulegt er.
Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir
Mynd/ Anna Kristín Scheving
Ertu mikið jólabarn? „Ég myndi segja að ég væri mátulega mikið jólabarn. Ég á auðvelt að koma mér í jólagír og hef gaman af hátíðinni en ég stressa mig ekki mikið á þessum tíma.”
Hvenær dregur þú fyrsta jólaskrautið fram og hvernig skreytir þú fyrir jólin? „Ég byrja að skreyta aðeins fyrir afmælið mitt sem er 30. nóvember og klára svo bara einhverntíman þegar ég hef tíma.”
Hvað kemur þér í jólaskap? „Sörubaksturinn og kærleikskúlurnar.”
Áttu þér eftirlætisjólalag? „Það snjóar finnst mér mjög fallegt.”
Ertu ein af þeim sem bakar nokkrar sortir fyrir jólin? „Nei, ég baka bara sörur.”
Hvernig jólatré ertu með? „Feita og litla furu.”
Hvað gerir þú á aðventunni? „Milli anna í þinginu þá reyni ég að njóta aðventunnar með vinum, fara á tónleika og njóta lífsins.”
Hvernig bækur lest þú um jólin? „Ég les þær bækur sem ég fæ í jólagjöf, oftast eina skáldsögu og eina sem tengist starfinu mínu að einhverju leyti.”
Hverjar eru jólahefðir fjölskyldunnar? „Ég held að við séum ekki með einhverjar óvenjulegar hefðir, en við erum óhrædd við að breyta til og stressum okkur ekki á einhverju sem misferst.”
Hvernig myndirðu lýsa aðfangadegi fjölskyldunnar? „Ég keyri um með gjafir til vina og vandamanna, stoppa þar oft í kakó og smákökum og notalegu spjalli áður en við komum öll saman á æskuheimilinu í Ártúnsholti í okkar fínasta pússi og hlustum á klukkurnar hringja inn jólin. Þá borðum við mat og opnum pakka og tökum svo í spil langt fram eftir nóttu.”
Geturðu sagt frá eftirminnilegum atburði sem gerðist á jólunum? „Ég held ég muni seint gleyma þeim jólum þegar ég gaf bróður mínum stuttermabol í gjöf á sama tíma og hann gaf mér miða á Coldplay-tónleika í London. Ég er enn að bæta það upp.”
Hvað er í jólamatinn? „Það er misjafnt, við erum ekki mjög íhaldssöm þegar kemur að því en oftast er það hamborgarhryggur.”
Ef þú mættir óska þér hvers sem er í jólagjöf hvað myndi það vera? „Ég held það hafi sjaldan verið mikilvægara á mínu lífsskeiði en að óska sér bara friðar.”
Hvaða hluti af jólahaldinu er í mestu uppáhaldi hjá þér? „Samveran með mínu fólki.”
Strengir þú áramótaheit? „Ég set mér regluleg markmið og áramótin eru góður tími til að taka snúning á þeim fyrir árið.”
Eftirminnilegasta jólagjöfin? „Jólaengillinn frá mömmu síðustu jólin okkar saman sem er fallegasta jólaskrautið mitt.”
Ef þú myndir vera erlendis yfir jólin, hvaða land yrði fyrir valinu? „Tæland eða Suður Afríka.”
Ert þú manneskjan sem ert með allt á hreinu fyrir jólin? „Ég er hvorki með allt tilbúið né að gera allt korter í jól, ég geri það sem ég get en læt annað bíða. Það er oft erfitt að taka ekki þátt í stressinu en það hefur reynst mér vel og mér finnst mikilvægt að gera ekki of miklar kröfur um hluti sem skipta ekki öllu máli.”
*Endurbirt með leyfi og upphaflega birt á vef Birtings og tímariti Húsa og híbýla.