Mótmælendum sem mættu á Austurvöll í dag var mörgum hverjum afar heitt í hamsi yfir framferði forsvarsmanna Samherja í viðskiptum sínum í Namibíu. Talið er að um fjögur þúsund manns hafi mætt á mótmælin.
Mbl var á Austurvelli og ræddi meðal annars við félagana Bjarna og Pál.
„Ég er að mótmæla þessari spillingu sem hefur komið fram í þessu Samherjamáli. Namibíumenn hafa nokkrir sagt af sér eða lent í fangelsi en það er ekkert af þessu á Íslandi,“ sagði Bjarni.
„Mér ofbeið að horfa á Kveik, mér varð illt. Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur útaf þessu ástandi sem er hérna og búið að vera alltof lengi,“ sagði Páll.
Báðir voru þeir sammála um að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eigi að segja af sér. En afsögn Kristjáns var á meðal þriggja meginkrafa mótmælenda. Hinar tvær kröfurnar eru annars vegar að Alþingi lögfesti nýja stjórnarskrá sem landsmenn samþykktu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og hins vegar að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings. Það var mjög ljóst að ný stjórnarskrá var mörgum mótmælendum ofarlega í huga.