Dalurinn, mötuneyti Íslandsbanka, hefur nú hlotið Svansvottun. Með þessu framtaki sýnir Íslandsbanki gott fordæmi og samfélagslega ábyrgð samhliða því að framfylgja sjálfbærnistefnu bankans.
Aðgerðir sem starfsfólk Dalsins hefur m.a. framkvæmt í vottunarferlinu eru:
- Mælingar og aðgerðir sem koma í veg fyrir matarsóun og samstarfi komið á við Kaffistofu Samhjálpar sem fær gefins yfir 65.000 máltíðir á ári.
- Eingöngu er notast við umhverfisvottuð efni í eldhúsi.
- Aukin innkaup á lífrænum vörum.
Einnig eru allar umbúðir og úrgangur sem fellur til í eldhúsinu og hjá gestum mötuneytisins vandlega flokkuð og endurunnin og orku- og vatnsmælar hafa verið settir upp til þess að fylgjast með og lágmarka notkun.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Til að hljóta Svansvottun þurfa fyrirtæki að uppfylla strangar umhverfis- og gæðakröfur sem taka til alls lífsferils vöru eða þjónustu. Þetta er 14 leyfið innan viðmiðaflokksins og þriðja mötuneytið á Íslandi. Það er mjög ánægjulegt að sjá innanhús mötuneyti innleiða Svaninn þar sem vottunin felur ekki í sér samkeppnisforskot fyrir þessa aðila heldur er verkefnið virkilega dregið áfram af umhverfishugsjón yfirmanna mötuneytisins með góðum stuðning yfirmanna og stjórnar.