Hitamet desembermánaðar féllu í tugum í gærkvöldi. Hæstur mældist hitinn á Kvískerjum í Öræfum, 19,7 stig, en einnig fór hitinn í 19 stig í Bakkagerði á Borgarfirði eystra og 18,8 stig í Vestdal í Seyðisfirði, samkvæmt mælingum.
Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallar um þessa miklu hitametahrinu á bloggsíðu sinni og segist varla muna eftir því að jafnmörg dægurhámarksmet hafi fallið sama daginn – líklega hafi það gerst á um 200 veðurstöðvum.
Hann segir þessa hitametahrinu ganga hratt yfir landið og nú fari að kólna í veðri.
„Vonandi gefst tóm til að fara betur yfir merkustu met þegar hrinan er liðin hjá – og það gerir hún fljótt. Spáð er frosti um mestallt eða allt land síðar í vikunni,“ skrifar Trausti.