Í tilefni 95 ára afmælis Ljósmyndarafélags Íslands verður opnuð norræn ljósmyndasýning á fyrstu hæð í Hörpu á morgun föstudaginn 18. febrúar kl. 16.30.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnar sýninguna með formlegum hætti auk þess að veita íslenskum verðlaunahöfum sem eiga myndir á sýningunni viðurkenningar.
Á sýningunni eru 45 verðlaunamyndir frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Efnt var til samkeppni félaga atvinnuljósmyndara í hverju landi. Í dómnefnd fyrir íslensku myndirnar sátu Tony Sweet frá Bandaríkjunum, Gabe McClintock frá Kanada og Line Loholt frá Noregi. Íslensku myndirnar eru frá 8 atvinnuljósmyndurum.
Sýningin sem er opin almenningi á opnunartíma Hörpu stendur fram til fimmtudagsins 3. mars.