Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðra útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í dag.
Með aðgerðunum er áætlað að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands muni hafa dregist saman um ríflega eina milljón tonna CO2-ígilda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Þetta þýðir að Ísland nær alþjóðlegum skuldbindingum sínum í loftslagsmálum um 29% samdrátt og gott betur, eða 35%. Til viðbótar eru aðgerðir sem eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti.
„Ákvarðanir og stefnumótun sem byggja á vísindum eru traustur grunnur fyrir árangur, það höfum við verið minnt rækilega á í vor. Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum byggir á slíkum grunni og það er ánægjulegt. Það er skylda okkar að tryggja hagsmuni og velferð komandi kynslóða og við gerum það með skýrum aðgerðum í loftslagsmálum sem stuðla að því að koma í veg fyrir ófyrirsjáanlegar afleiðingar hamfarahlýnunar. Ég er stolt af því að leiða ríkisstjórn sem leggur hér fram áætlun sem sýnir fram á að við getum náð metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Hér má lesa meira frá kynningunni sem fram fór í dag.