Auglýsing

Nýjasta verkefni Ben Affleck og Matt Damon gæti endað í málssókn: Hulk Hogan er ekki sáttur

Hollywood-leikararnir Ben Affleck og Matt Damon eru um þessar mundir að skrifa handritið að kvikmynd um „myrkasta tímabilið í lífi Hulk Hogan“ en um er að ræða hið fræga dómsmál sem hinn heimsfrægi glímukappi fór í gegn vefmiðlinum Gawker.

Dómsmálið snérist um friðhelgi einkalífs Hogan en vefmiðillinn Gawker birti á sínum tíma kynlífsmyndband sem sýndi glímukappann í samförum með eiginkonu besta vinar síns. Málið vakti heimsathygli en það hófst árið 2013 þegar málssóknin var lögð fram af hendi Hogan sem heitir réttu nafni Terry Gene Bollea.

Fékk tæpa 20 milljarða í bætur

Hogan vann málssóknina en dómur féll í málinu þann 18. mars árið 2016 og var vefmiðillinn dæmdur til að greiða glímukappanum knáa 140 milljónir dollara eða tæpa 20 milljarða íslenskra króna. Upphæð bótanna varð til þess að Gawker fór á hausinn.

Heimildir TMZ herma að Hulk Hogan komi hvergi nálægt verkefninu og sé í raun engan veginn sáttur við að þeir félagar Affleck og Damon hafi ákveðið að búa til kvikmynd um dómsmálið og aðdraganda þess. Þá herma sömu heimildir að Hulk Hogan sé tilbúinn til þess að höfða annað dómsmál og þá gegn þeim félögum ef þeir „fara yfir strikið“ eins og það er orðað í frétt TMZ.

Er ekki í neinum samskiptum við þá

„Heimildir okkar herma að Hulk „sé á mjög góðum stað í lífinu núna“ – hann hafi fundið nýja eiginkonu, sé orðinn mjög andlegur og að elta spennandi nýtt viðskiptatækifæri með bjór sem er bruggaður í hans nafni,“ segir í frétt miðilsins sem heldur því einnig fram að Hogan hafi ekki verið og sé ekki í neinum samskiptum við þá félag um gerð kvikmyndarinnar.

Þetta er ekki fyrsta kvikmyndin sem þeir félagar framleiða saman en þeir hafa gert kvikmyndir á borð við Dogma, Jay and Silent Bob Strike Back, Project Greenlight og The Last Duel. Frægasta kvikmyndin sem þeir félagar hafa framleitt er að sjálfsögðu Óskarsverðlaunamyndin Good Will Hunting sem kom út árið 1997 en nýjasta mynd þeirra sló einnig í gegn. Hún heitir Air og kom út í fyrra.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing