Undanfarin misseri hefur talsvert verið fjallað um vanda feðra við að auka umgengni við börn sín, ekki síst þegar forsjá er ekki sameiginleg. Nýlega var í gangi rannsókn við Háskóla Íslands sem sneri að upplifun og tilfinningum feðra sem umgangast börnin sín minna en aðra hverja helgi að jafnaði. Einnig voru rannsökuð viðbrögð barnavernda og sýslumannsembætta við þeim vanda sem feðurnir mæta þegar þeir sækjast eftir aukinni umgengni.
Rannsóknin var unnin af Nínu Eck, nema við Félagsráðgjafardeild HÍ, en Nína segir að niðurstöður rannsókna hafi sýnt fram á að jöfn umgengni geri það að verkum að barn telji sig öruggt þegar kemur að tengslum við báða foreldra.
„Þetta eru niðurstöður sem hafa leitt til lagabreytinga víðs vegar í Bandaríkjunum þar sem jöfn umgengni er talin vera normið en á Íslandi er miðað við lágmarksumgengni eins og hún er skilgreind í 20 ára gömlu frumvarpi er varð að barnalögum,“ segir Nína en áhugi hennar hefur fyrst og fremst legið í því að bæta kynjajafnrétti í meðferð umgengnismála á Íslandi.
Feður finna fyrir sorg
Nína segir að rannsóknin, sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, hafi upphaflega átt að vera mótsvar við baráttu gegn tálmun, sem hefur verið í umfjöllun í samfélaginu reglulega. „Mig langaði því að kanna ástæður fyrir því að feður hafa ekki áhuga á að hitta börnin sín.“
Þegar vikið er að niðurstöðum rannsóknarinnar segir Nína að feður finni fyrir sorg og vanmætti og hafi flestir átt sögu um ágreining, annaðhvort við barnsmæður sínar eða stjórnsýsluna.
„Í einu tilfelli sagði barnsmóðir mannsins að hann hefði ekki áhuga á samskiptum við barn sitt í því skyni að þurfa ekki að stuðla að umgengni hans við barnið. Starfsmenn barnaverndar og sýslumanns komu orði á að það vantaði úrræði til að koma á umgengni en afsöluðu sér ábyrgð á því og vildu að ný stofnun yrði sett á legg.“
Vonast til að rannsóknin hjálpi við úrbætur
Aðspurð um áhrif þessarar rannsóknar segist Nína vonast til þess að hún verði til þess að mæður veiti því aukna athygli að stuðla að samskiptum barns við föður sinn, „þó svo að foreldrarnir séu ekki sammála eða áttu slæm sambandsslit. Hagur barns ætti að vera hafður í forgrunni í öllum málum og er mikilvægt fyrir okkur sem mæður að geta aðskilið neikvæðar tilfinningar í garð fyrrverandi maka frá hæfni hans sem foreldri og þeim rétti barns að þekkja báða foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.“
Nína er á því að í rannsókninni sé ákveðinn nýsköpunarflötur sem felist ekki síst í því að hér sé kjörið tækifæri fyrir sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa að bjóða fram aðstoð sína. „Ef íslensk stjórnsýsla er ekki tilbúin að taka þessi mál að sér væri hægt að setja á fót ákveðna milligönguþjónustu til þess að veita mæðrum þá hugarró að umgengnin sé örugg og að einhver sé föðurnum til taks á meðan á umgengninni stendur án þess þó að þurfa að nýta sér dómskvadda umgengni undir eftirliti, sem feðrum finnst oft niðrandi eða neikvæð upplifun,“ segir Nína.
Hún bætir því einnig við að þrátt fyrir það að heimsmarkmið fimm, „Jafnrétti kynjanna“ snúi einungis að konum og stúlkum þá telji hún að umgengni feðra við börn sín sé mjög mikilvægt jafnréttismál og falli þar undir. „Eins og staðan er í dag eru foreldrar sem ekki deila lögheimili með barni sínu ekki skráðir sem foreldrar í þjóðskrá eða hjá Hagstofu Íslands. Umgengnismál eru klárlega kynjajafnréttismál en það virðist erfitt að tala um þau í því samhengi því sumir geta ekki aðgreint umgengnismál frá málum þar sem börn eru neydd í umgengni við feður sem beita ofbeldi.“
Nína segir að þessi rannsókn sín sé eigindleg en hlutverk slíkra rannsókna á sviði félagsvísinda sé t.d. að leiðbeina stjórnsýslunni um hvað megi gera betur, t.d. með því að draga fram viðhorf einstaklings í þeim málum þar sem skortur er á vilja til að hlusta á hann.
Lesa má greinina og viðtalið við Nínu í heild sinni á vef Háskóla Íslands.