Hljómsveitin Hjaltalín hefur gefið út nýtt lag, Needles and Pins. Um er að ræða þriðju smáskífuna af væntanlegri fjórðu breiðskífu sveitarinnar. Áður höfðu komið út lögin Baronesse og Love From ’99, en bæði lögu nutu gríðarlegra vinsælda á öldum ljósvakans á síðasta ári og voru þau m.a. bæði á topp 6 yfir mest spiluðustu lög ársins á Rás 2. Þá var Baronesse jafnframt tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem lag ársins.
Platan er annars fullkláruð og er nú bara í framleiðslufasa og væntanleg á allra næstu mánuðum. Það má því segja að spennan fyrir næstu plötu Hjaltalín magnist, en margir hafa beðið óþreyjufullir í langan tíma eftir nýrri breiðskífu, enda næstum því átta ár liðin frá því að síðasta plata Hjaltalín, Enter 4, kom út.
Nýja lag Hjaltalín, Needles and Pins, var samið af píanó- og hljómborðsleikara sveitarinnar, Hirti Ingva Jóhannssyni, í samvinnu við aðra meðlimi Hjaltalín. Lagið er stútfullt af angurværð og trega, leitt áfram af söngkonunni Sigríði Thorlacius.
Nýja platan hefur ekki enn fengið formlegt nafn, en gengur undir vinnuheitinu „Úlfaplatan“. Nánari upplýsingar um útgáfu hennar verða birtar á næstunni.