Öllu flugi á Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst eða því seinkað vegna stormsins sem gengur yfir landið. En Icelandair hóf fyrirbyggjandi aðgerðir vegna veðurs í gær.
„Við erum búin að vera að fylgjast með veðurspánni síðan í gær og byrjuðum þá að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Til dæmis endurbókuðum við alla skiptifarþega, sem áttu flug frá Evrópu til Bandaríkjanna eða til Norður-Ameríku með lendingu á Íslandi, til að koma í veg fyrir að þeir yrðu strandaglópar ef að veðrið yrði slæmt,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við Fréttablaðið.
„Síðan erum við bara að reyna að hagræða fluginu þannig að það hitti á rétta veðurglugga. Til dæmis hefur öllum brottförum frá Evrópu til Íslands verið seinkað þannig að það sé ekki verið að lenda hér meðan veðrið er sem mest. Við erum að gera ráð fyrir að það lægi kannski um 8 eða 9 leytið í kvöld.“
Við erum að seinka flugi til Kaupmannahafnar, Oslóar og Stokkhólms, sem átti að fara seinni partinn þegar veðrið er sem verst, og þær vélar eru áætlaðar klukkan tvö í nótt,“ segir Ásdís. „Við erum svo búin að aflýsa þremur Ameríkuflugum; til San Fransisco, Seattle og Denver og erum að leita lausna fyrir þessa farþega. Öðrum brottförum til Bandaríkjanna og Kanada hefur svo verið seinkað til svona 8 til 9 í kvöld erum við að áætla. Við vonumst til að þá verði farið að lægja.“